Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

X-Garður: Þrír listar í framboði - Sjálstæðismenn bjóða fram
Sunnudagur 23. maí 2010 kl. 12:30

X-Garður: Þrír listar í framboði - Sjálstæðismenn bjóða fram


Kjósendur á kjörskrárstofni í Sveitarfélaginu Garði eru alls: 984. Þar af 482 konur og 502 karlar.

Framboð í Sveitarfélaginu Garði:

D - Sjálfstæðisflokkurinn og óháðir
L - Listi allra Garðbúa
N - Listi nýrra tíma

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

--------------------

Kosningabarátta án þess að nokkur særist


Það er framtíðin sem skiptir máli og þau málefni sem við leggjum áherslu á eru þessi almennu málefni en einnig erum við með fókus á ferðaþjónustu hér í Garði og atvinnumálin,“ segir Einar Jón Pálsson, tæknifræðingur, sem skipar oddvitasæti Sjálfstæðisflokks og óháðra í Garði.

- Hvað skiptir Garðinn mestu máli á næsta kjörtímabili?
„Það eru atvinnumálin fyrst og fremst. Hérna þarf að auka atvinnu á allan mögulegan hátt. Það er frumverkefni okkar að auka tekjur, bæði fyrir sveitarfélagið og ekki síst íbúana“.

- Hverning hefur stemmningin verið í kosningabaráttunni?

„Þetta fer vel af stað hjá okkur. Það eru samt rólegheit yfir þessu enda held ég að fólk vilji fara í gegnum þessar kosningar án þess að nokkur særist“.

- Pólitískt landslag í Garðinum er breytt frá því sem verið hefur. Hverju spáir þú um úrslit kosninga?

„Þetta eru breytingar og það er erfiðara að spá í þetta en verið hefur en við erum ákveðin í því Sjálfstæðismenn og óháðir að ná sigri í þessum kosningum,“ sagði Einar Jón Pálsson í samtali við Víkurfréttir.



Einar Jón Pálsson.

----------------------------------


Vilja íbúakosningu um mikilvæg málefni

Það er hugur í mannskapnum og þýðir ekkert annað,“ segir Davíð Ásgeirsson, slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður, sem skipar efsta sæti L-listans í Garði. Framboðið kom fram nú á vormánuðum, skömmu áður en framboðsfrestur rann út í Garðinum.

Þegar hann er spurður um helstu stefnumál listans fyrir komandi kosningar vísar hann til heimasíðu listans, www.x-l.is en nefnir meðal annars að íbúalýðræði verði aukið með möguleika á íbúakosningu um mikilvæg málefni. Þá vill L-listinn að höfuðstóll Framtíðarsjóðsins verði ekki skertur til að hann geti áfram gegnt hlutverki sínu sem Framtíðarsjóður Sveitarfélagsins Garðs, nema meirihluti Garðbúa kjósi svo. Framboðið vill að aðstaða á Garðskaga fyrir ferðamenn, sjósundsfólk, fuglaskoðunarfólk og aðra gesti verði bætt.

Í atvinnumálum verði reynt að laða að ný fyrirtæki og áhersla lögð á að skapa gott umhverfi fyrir þau. Gerð göngu- og hjólreiðarstíga verði hraðað, með áherslu á Skagabraut og strandlengjuna frá Garðskaga að Útskálum og lokið verði við þá á kjörtímabilinu. „Okkar stærstu mál eru að gera Garðinn betri,“ segir Davíð.
Varðandi þau mál sem skipti Garðinn mestu máli á næsta kjörtímabili, þá nefnir Davíð að auka þurfi atvinnutækifæri í sveitarfélaginu og að atvinnumálin skipti Garðinn öllu máli og að staðið sé við bakið á fjölskyldum.

- Hvar staðsetur þú L-listann. Eruð þið hægriflokkur?
„Við erum alveg óháðir. Það vakti ekki fyrir mér að sprengja samstöðu sjálfstæðismanna þegar ég stofnaði listann. Ég sendi bréf á alla Garðmenn og bauð þeim þátttöku og L-listinn varð að veruleika“.

Aðspurður um úrslit kosninganna segir Davíð það ekki verða ólíklegt að L-listinn verði í oddaaðstöðu í sveitarfélaginu. Hann vill þó vera bjartsýnn og spáir L-listanum með þrjá menn í nýrri bæjarstjórn.


Davíð Ásgeirsson

---------------------------


Halda sig á jörðinni í kosningaloforðum

Hljóðið er gott í okkar fólki og við erum bara bjartsýn,“ segir Benedikt G. Jónsson, pípulagningameistari, sem skipar oddvitasæti N-listans í Garði fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

Benedikt segist hafa mikla trú á þeim framboðslista sem hann leiðir og hann mæli það í þeim viðbrögðum sem hann og aðrir frambjóðendur fái í Garðinum og hvernig sé talað um þau.
„Okkar stærstu mál snúa að fjölskyldum í Garðinum en við viljum halda loforðum niðri á jörðinni. Við viljum geta staðið við hlutina frekar en að lofa einhverju á fallegum glanspappír. Kosningarnar snúast ekki um einhver innantóm loforð,“ segir Benedikt og bætir við að stýra þurfi bæjarfélaginu þannig að þar sé góður rekstur og hann standi undir sér.

- Nú er landslagið í pólitíkinni í Garðinum tölvuvert breytt.

„Hér var farið út í það að reyna að sameina sjálfstæðismenn á einum lista. Það klikkaði og þeir gripu þá til þess ráðs að kalla listann X-D og óháðir, til að friða aðila. Það klikkaði líka og til varð þriðja framboðið í Garði, L-listinn sem er í raun og veru bara sjálfstæðisfólk. Það er sjálfstæðisfólk hjá okkur líka, enda allir velkomnir til okkar. Ég segi að þetta sýni sundrungina í Sjálfstæðisflokknum. Við höfum hins vegar náð að standa vel saman. Vissulega fóru nokkrir frá okkur yfir á D-listann en það var þeirra val,“ segir Benedikt. Hann segist ánægður með þær greinar sem skrifaðar hafa verið um pólitíkina í Garði, því þær séu allar um þau góðu mál sem N-listinn hafi verið að vinna að á kjörtímabilinu sem nú er að líða. „Þeir hreykja sér af verkum N-listans og við erum bara ánægð með það.

- Hvað skiptir Garðmenn mestu máli næstu 4 árin?

„Það eru atvinnumálin. Við erum þokkalega vel sett í þeim málum hér í Garði. Við höfum trú á að álversframkvæmdir fari á fullt og erum með fund um þau mál á fimmtudag [í dag] með aðstoðarforstjóra Norðuráls sem ætlar að kynna fólk stöðu framkvæmda“.

Þegar Benedikt er beðinn að spá í úrslit kosninganna segir hann N-lista fá fjóra menn, D-lista þrjá og L-lista engann.




Benedikt G. Jónsson

-------------------------------