WOW air fyrsta flugfélag Evrópu sem flýgur Airbus A321neo
„Þetta er veruleg viðbót við flotann og gerir okkur kleift að fljúga vegalengdir upp á meira en sex þúsund kílómetra,“ segir Skúli Mogensen, eigandi og forstjóri WOW air, en flugfélagið verður það fyrsta í Evrópu til þess að fljúga Airbus A321neo. Samningur þess efnis var undirritaður í dag á flugsýningu í París.
„A321neo mun gera WOW air mögulegt að stækka leiðarkerfi sitt í Evrópu og Norður-Ameríku með vél sem er ein sú þægilegasta og hagkvæmasta í rekstri á markaðnum í dag,“ segir John Leahy, forstjóri Airbus.
„Þessi fyrsta afhending á A321neo í Evrópu sýnir glöggt hversu sterkt og gjöfult samstarf okkar við WOW air er. Við erum einstaklega ánægð að vera tengd þeirra uppgangi á heimsvísu. Á skömmum tíma hefur WOW air náð að verða flugfélag sem nýtir sér óhikað tækninýjungar með góðum árangri. Þessi nýja flugvél mun tryggja áframhaldandi vöxt flugfélagsins þar sem hún drífur lengra á sama tíma og hún heldur eldsneytiskostnaði í lágmarki,“ segir Steven F. Udvar-Hazy stjórnarformaður Air Lease Corporation.
Nýja vélin mun hljóta nafnið TF-SKY og fer í áætlunarflug í byrjun júlí og mun meðal annars fljúga til staða á borð við Tel Aviv í september. Vélin er sautjánda vél WOW air og í henni eru 218 sæti. Í lok árs 2018 verða vélar WOW air orðnar 24 talsins.