Wilson Muuga: Eigendur íhuga hvort skipið fái að standa. Skipið burt, segir bæjarstjórn
Hugsanlegt er að eigandi og tryggingafélag Wilson Muuga óski eftir því við umhverfisyfirvöld að skipið fái að standa áfram þar sem það mengi ekki lengur. Það yrði þá aðeins aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.
Að öllu venjulegu ætti niðurrif að geta hafist á næstunni, en samkvæmt heimildum Stöðvar 2 eru eigandi og tryggingafélag skipsins að íhuga möguleika á undanþágu til þess, í ljósi þess hversu erfitt og dýrt það yrði og með hliðsjón af því að ekki stafi lengur mengun af því.
Bæjaryfirvöld í Sandgerði tók Wilson Muuga-málið fyrir á bæjarstjórnarfundi í gær. Þar var ákveðið að fela umhverfisráði að fylgja eftir framkvæmd við hreinsun fjörunnar að höfðu samráði við Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja og Umhverfisstofnun. Bæjarstjórn leggur áherslu á að fjara og náttúra svæðisins verði fullhreinsuð sem fyrst, skv. því er fram kemur í bókun.
Þá er það von bæjaryfirvalda að siglingaleið skipa með viðkvæman farm fyrir Reykjanes verði tekin til endurskoðunar í ljósi þessa atviks og ábendingar sérfræðinga þar um.
Mynd: Wilson Muuga á strandstað í Hvalsnesfjöru. VF-mynd:elg