VSSÍ vill samræmdar reglur um atvinnurekstur
Verkstjórasamband Íslands krefst þess að öll fyrirtæki á íslenskum vinnumarkaði verði gert skylt að hafa alla millistjórnendur sína í stéttarfélagi verkstjóra. Þetta kom fram í ályktun sambandsins sem gerð var á 31. þingi VSSÍ sem haldið var í Reykjanesbæ nú um helgina.
Fram kemur í ályktuninni að nokkuð hafi borið á því, með tilkomu erlendra fyrirtækja hérlendis, að stjórnendum hefur verið meinuð aðild að stéttarfélögum.
Einnig ályktaði sambandið um starfsmannaleigur og erlent vinnuafl þar sem þingið fer fram á það við stjórnvöld að settar verði samræmdar reglur um allan atvinnurekstur þannig að starfsmannaleigur hlíti þeim reglum sem aðrir verða að búa við. Þannig verði atvinnurekstri ekki mismunað eftir formi hans né geti menn með óeðlilegum undirboðum, bæði hvað varðar vinnuafl og vöru, raskað samkeppnismarkaði.
Alls ályktaði þingið um fjögur mál en hin tvö voru „staðaverkstjóra og öryggi“ ásamt því að álykta um lífeyrismálin. Þær ályktanir koma hér:
Staða verkstjóra og öryggi
Hin síðari ár hefur ábyrgð og álag á stjórnendur aukist. Það hefur m.a. komið til vegna kröfu um aukna hagkvæmni og hagræði. Verkstjórar / Stjórnendur hvetja eigendur fyrirtækja til að gleyma ekki öryggismálum fyrirtækja sinna og skera ekki niður í þeim liðum. Það hefur stundum orðið hlutskipti verkstjórans að bera ábyrgð á óhöppum sem rekja má til öryggisbúnaðar og tækja sem ekki hefur verið haldið við sem skyldi. Í slíkum tilfellum getur ábyrgð verkstjórans orðið söm þó að hann hafi ítrekað óskað endurbóta. Ef síðan kemur til þess að fyrirtækið getur ekki staðið við skuldbindingar sínar getur stjórnandinn setið uppi með bótaábyrgð. Slíka bótakröfur geta farið langt umfram heildar eignir venjulegra millistjórnenda. Launakjör venjulegra millistjórnenda réttlæta ekki slíka ábyrgð. Það á að vera skýlaus krafa að öryggis og tryggingarmál fyrirtækja séu með þeim hætti að ekki komi til þess að millistjórnendur í fyrirtækjum lendi í persónulegum ábyrgðum.
Lífeyrismálin
Þrátt fyrir nokkra aukningu framlaga í lífeyrissjóð á síðustu árum þá vantar mikið upp á það að lífeyrisréttur starfsmanna á almennum vinnumarkaði sé sambærilegur við réttindi ríkisstarfsmanna. Það hlýtur að vera grundvallarkrafa að allir sitji við sama borð varðandi lífeyrisréttindi og að ekki verði veruleg röskun á fjárhagslegum högum fólks við starfslok.
Verkstjóraþing gerir þá kröfu til stjórnvalda að þau skapi, þeim aðilum sem stjórna lífeyrissjóðunum og þeim aðilum sem hafa eiga eftirlit með þeim, lagaumhverfi sem tryggi þeim sem við málið fást og þeim aðilum er hagsmuna eiga að gæta; völd, aðhald og ábyrgð.
Krafan er einn lífeyrissjóður fyrir alla.
Mynd 1: Af þingi VSSÍ - Mynd 2: Stjórn sambandsins / VF-mynd: Atli Már Gylfason