VSFK innheimtir laun fyrir 60 verkamenn í gjaldþrota kísilveri
United Silicon er gjaldþrota. Það varð ljóst nú áðan en heimild félagsins til greiðslustöðvunar féll niður í dag. Stjórn United Silicon mun skila inn gjaldþrotabeiðni fyrir kl. 16 í dag, segir á vef mbl.is.
Kristján Gunnarsson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, sagðist í samtali við Víkurfréttir eiga von á því að þurfa að innheimta laun þeirra 60 verkamanna sem unnið hafa hjá United Silicon undanfarið. Fram til þessa hefur Arion banki staðið undir launagreiðslum og öðrum kostnaði upp á um 200 milljónir króna á mánuði eftir að starfsemi verksmiðjunnar var stöðvuð sl. haust.
Umhverfisstofnun hafði gefið út að United Silicon væri óheimilt að endurræsa ljósbogaofn verksmiðjunnar nema skorsteini verði bætt á verksmiðjuna í þágu íbúa til að minnka lyktarmengun. Stofnunin fellst ekki á þá ósk forsvarsmanna Sameinaðs silíkons að fresta þeirri aðgerð fram yfir endurræsingu en USi telur að það geti tekið allt að tvö ár að ljúka slíkri framkvæmd. United Silicon fékk heimild til greiðslustöðvunar síðla sumars til 4. desember sl., sem síðan var framlengd til dagsins í dag.
Umhverfisstofnun hefur með svarbréfi dags. 19. janúar sl. fallist á úrbótaáætlun Sameinaðs Silíkoni hf. í Helguvík með skilyrðum.
United Silicon sendi Umhverfisstofnun úrbótaáætlun með bréfi 14. desember 2017 og 16. janúar 2018. Með svarbréfi Umhverfisstofnunar sem sent var fyrirtækinu 19. janúar sl. setur Umhverfisstofnun fram sem skilyrði fyrir samþykkt úrbótaáætlunar. Skorsteini verði bætt á verksmiðjuna og þá verði fyrirtækinu gert að vinna að fleiri úrbótum. Umbætur hafa þó átt sér stað og telur Umhverfisstofnun m.a. að nýtt og betra reykhreinsivirki fyrir afsog frá aftöppun og steypingu í ofnhúsi sé til bóta.
Rúma 3 milljarða króna kostar að koma kísilverksmiðju United Silicon í rekstur, koma mengunarvörnum í lag og klára verksmiðjuna sé tekið mið af niðurstöðu norskra sérfræðinga en þeir unnu hana fyrir eigendur verksmiðjunnar og greint var frá hér á vf.is í gærkvöldi.