Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

VSFK 75 ára í dag
Föstudagur 28. desember 2007 kl. 14:21

VSFK 75 ára í dag

Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis er 75 ára í dag. Félagið er stofnað í Keflavík 28. desember 1932. Ekki er haldið sérstaklega upp á afmælið og sagði Kristján Gunnarsson, formaður VSFK, að frekar væri blásið til hátíðar á heilum tug og því fimm ár í næstu afmælishátíð.

Eftirfarandi er af vef VSFK: Það þurfti býsna mikinn kjark og áræðni, þá ákvörðun tóku menn þann 28. desember 1932 þá komu saman 19 verkamenn til fundar í samkomuhúsinu Skyldi, tilgangur fundarins var að stofna verkalýðsfélag. Eftir langan og strangan fund, þar sem bornar höfðu verið upp fjórar tillögur, sem allar höfðu verið felldar, ýmist um að endurvekja gamla félagið eða að stofna nýtt. Þá var fimmta tillagan borin upp af Arinbirni Þorvaðarsyni, en hún hljóðaði þannig:

"Fundurinn samþykkir að stofnað verði nýtt félag er heiti Verkamannafélag Keflavíkur"

Var þessi tillaga samþykkt eftir langar umræður eins og segir í fyrstu fundargerðarbók félagsins. Í framhaldi samþykktu menn að boða til framhaldsstofnfundar og það var gert 16. janúar 1933. Þá voru áskrifendurnir orðnir 41. Fyrstu stjórn skipuðu þeir Guðni Guðleifsson formaður, Guðmundur J. Magnússon, Guðmundur Pálsson, Danival Danivalsson og Arinbjörn Þorvaðarson.

Sumir þeirra sem stofnuðu félagið höfðu reynt að stofna félag nokkrum mánuðum áður. Þeir höfðu verið kúgaðir til að leggja það félag niður.  28. desember 1932 höfðu þó menn öðlast reynslu og þeim aukist kjarkur, samstaðan var meiri en áður trúin á hugsjónina var meiri, það var ekki auðvelt að stofna verkalýðsfélag í þá daga. Fáir mættu á fundi, atvinnurekendur fyldust vel með hverjir mættu hjá slíkum uppreisnarseggjum og þeim var refsað, sem þar mættu. Ýmist reknir úr vinnu eða neitað um vinnu, lífsbjörgin tekin frá þeim. 

Eins og fyrr sagði þá höfðu nokkrir hugsjónarmenn úr Keflavík og Njarðvík reynt að stofna félag áður. það var 1931 þá stofnuðu þeir Verkamannafélag Keflavíkur og þar í stjórn voru kjörnir þeir Axel Björnsson formaður, Hannes Jónsson, Kristinn Jónsson, Valdemar Guðjónsson og Þorbergur Sigurjónsson. Þeir mættu gífurlegri andstöðu, atvinnurekendurnir neituðu að viðurkenna félagið sem samningsaðila. Atvinnurekendurnir mynduðu með sér samstöðu, allt varð að gera til að brjóta félagið á bak aftur og það ver gert, þá var notað ofbeldi. Aðfaranótt 20. janúar 1932 var ráðist inn í hús eitt í Keflavík og formaður félagsins Axel Björnsson sem var gestkomandi, tekinn höndum og fluttur nauðugur á vélbát til Reykjavíkur, var honum hótað öllu illu ef hann léti sjá sig aftur Keflavík.
Skömmu síðar fengu atvinnurekendur hreppsnefndina til að koma saman og þvinguðu þeir stjórn félagsins til að boða til félagsfundar, þar voru félagsmenn kúgaðir til að leggja félagið niður, aðeins einn greiddi atkvæði á móti. Aðrir treystu sér ekki til annars en að greiða atkvæði með að leggja félagið niður.
Fyrsti formaður félagsins var Guðni Guðleifsson.

Tilgangur félagsins var að semja um kaup og kjör landverkafólks og sjómanna.  Um haustið 1933 höfðu allir sem höfðu vinnu skrifað undir kauptaxta félagsins. Þar sagði að greiða skyldi 1 krónu á klukkustund í almennri verkamannavinnu en 90 aura í reitarvinnu. Kvennakaup var miklu lægra en þetta. Dagvinna taldist vera frá klukkan sjö að morgni og til klukkan sjö að kvöldi, eftirvinna frá kl. sjö að kvöldi til til tíu. Næturvinna til sjö morgnuninn eftir.  Snemma var reynt að ná samningum við útgerðarmenn fyrir sjómenn og landmenn er unnu við bátana, það tókst þó ekki fyrr en árið 1937.  Þá fyrst hafði félagið náð varanlegri fótfestu þá var það fyrst viðurkennt af öllum atvinnurekendum.

Á framhaldsstofnfundi sem haldin var 16. janúar 1933 höfðu 41 verkamenn skráð sig í félagið.

Fimm eftirtalin stéttarfélög hafa sameinast VSFK.

Í júlí 1974 Verkalýðsfélag Hafnahrepps og Verkalýðsfélag Vatnsleysustrandarhrepps.
1989 Verkakvennafélag Keflavíkur og Njarðvíkur.
1. janúar 1998 Verkalýðs og sjómannafélag Gerðahrepps.
5. febrúar 1999 Bifreiðastjórafélagið Keilir.

Á fyrstu árum félagsins lét félagið sér ekkert óviðkomandi. Meðal  annara verkefna sem tekin voru fyrir var að bjóða fram lista til hreppsnefndar. Skemmst er frá því að segja að félagið fékk engan mann kjörin í fyrstu tilraun árið 1934. En 1938 fengu þeir tvo menn kjörna þá Ragnar Guðleifsson þáverandi formann félagsins og Danival Danivalsson. Á félagsfundum þessa tíma voru rædd margvísleg málefni meðal annars um sjúkrahús, verkamannaskýli, bókasafn, löggæslu, kartöflugarða og margt margt fleira. VSFK hafði forgöngu um stofnun Byggingafélags verkamanna árið 1942 og einnig um stofnun sjúkrasamlags árið 1943. 1935 stofnaði félagið pöntunarfélag sem síðar varð KRON og enn seinna Kaupfélag Suðurnesja. Félagsbíó, saga þess hófst 1936 það voru verkamenn úr Keflavík og Njarðvík sem byggðu Verkó eins og það var nefnt í þá daga. Lífeyrissjóður Suðurnesja var stofnaður 1970.

Félagið hefur verið til húsa að Hafnargötu 80 síðustu þrjátíu árin.

Það hefur ávallt fylgt félaginu þeir erfiðleikar er voru við stofnun þess. Þar segir af Axel Björnssyni. Einnig má geta  fyrsta samningsins  við erlendan aðila. Þann 17. júlí 1934 var gerður samningur milli VSFK og N. Steindal en hann var norskur verktaki sem vann við smíði hafskipabryggjunnar og steingarðs fyrir Óskar Halldórsson í Vatnsnesvík á árunum 1932 til 1935. Hafði hann um 30 vana menn í bryggjusmíðinni, með sér frá Noregi. Samingur þessi var talinn hafa markað tímamót í verkalýðsbaráttunni hér syðra, þar sem VSFK stóð þá enn fyrir utan ASÍ. Þá er jafnvel talið að hér hafi verið á ferðinni fyrsti samningurinn sem íslenskt verkalýðsfélag gerði við erlendan aðila, a.m.k. einn af þeim fyrstu.

Helstu baráttumál dagsins í dag. Eru að semja um kaup, kjör og aukin réttindi hvers konar. Eitt af mikilvægustu verkefnunum er vinna við atvinnumál svæðisins til að tryggja atvinnuöryggi félagsmanna okkar. Jafnframt má nefna starfsmenntamál, félagið hefur lagt sig fram að auka framlag til starfsmenntunnar félagsmanna sinna.

Félagið mun hér eftir sem hingað til standa vörð um réttindi og launakjör félagsmanna sinna. Vera framsækið og leiðandi á landsvísu um þau mál. Ekkert mál er snertir kjör og réttindi hvers konar er félaginu og verkalýðshreifingunni allri óviðkomandi.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024