Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vöxtur hjá HSS
Föstudagur 9. desember 2005 kl. 10:58

Vöxtur hjá HSS

Mikill vöxtur var í rekstri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja á síðasta ári en það kemur fram í ársskýrslu HSS fyrir árið 2004 sem er nýlega komin út. Þetta er í fyrsta skipti sem stofnunin sendir frá sér svo ítarlega skýrslu, en héðan í frá mun þetta verða árlegur viðburður.

Í skýrslunni kemur m.a. fram að um 60% aukning var á innlögnum á HSS og 34% fjölgun á legudögum. Innlagnir voru rúmlega 1700 og legudagar um 19400. Rúmanýting á stofnuninnni var 93%.

Þá var t.d. mikil aukning í fjölda meðferða í sjúkraþjálfun og í heimahjúkrun auk þess sem aukning var í starfsemi mæðra- og ungbarnaverndar.

Á þessu 50 ára afmælisári HSS var mikið unnið í viðhaldsvinnu innanhúss þar sem anddyri var m.a. endurnýjað og kapellan stækkuð. Þá var sett upp glæsilegt listaverk, „Lífsins Tré“ eftir Erling Jónsson, á lóð stofnuninnar auk fánastangar og stuðlabergssúlu sem voru sett upp til minningar um Kristján Sigurðsson, fyrrverandi yfirlækni, og Valgerði Halldórsdóttur, konu hans.

Frekari framkvæmdir hafa tafist vegna fjárskorts, en vonast er til að hægt verði að ganga í nauðsynlegt viðhald á húsum stofnunarinnar.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast á heimasíðu stofnunarinnar, www.hss.is

Loftmynd/Oddgeir

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024