Vörubílstjóri slasast í bílveltu
Bílstjóri vörubifreiðar var fluttur á sjúkrahús í Reykjavík eftir bílveltu á veginum að Bláa lóninu nú síðdegis. Bílstjórinn missti stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að hún valt á hliðina út fyrir veg. Vörubifreiðin, bíll með stóran tengivagn, var fulllestaður af grjóti og hafnaði farmurinn úti í hrauni.
Bílstjórinn var einn í bílnum og var hann fyrst fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og þaðan til frekari skoðunar á sjúkrahús í Reykjavík. Hann mun hafa hlotið innvortis áverka, samkvæmt upplýsingum lögreglunnar í Keflavík.
Í dag varð árekstur tveggja sendibifreiða á Reykjanesbraut. Þar urðu ekki slys á fólki en báða bílana varð að fjarlægja af vettvangi með dráttarbílum.
Mynd: Frá slysinu við Bláa lónið nú undir kvöld. Ljósmynd: Hilmar Bragi
Video: Myndir frá vettvangi slyssins (2,6Mb .wmv)