Vopnaðir menn tóku á móti björgunarsveit á Garðskaga
Björgunarsveitin Ægir í Garði var kölluð út síðdegis vegna manna sem taldir voru í vanda á rifi úti fyrir Garðskaga.
Tilkynnt var um fólk sem væri hugsanlega í vanda í Lambarifi á Garðskaga. Neyðarlínan kallaði til lögregluna á Suðurnesjum og Björgunarsveitina Ægi. Þar var strax mannaður björgunarbátur sem sendur var að Lambarifi.
Þar tóku hins vegar vopnaðir menn á móti björgunarsveitarmönnum. Þeir voru að skjóta fugla í rifinu og amaði ekkert að þeim.
Það var fólk sem var að njóta góða veðursins á Garðskaga sem hafði séð til fólks í rifinu og taldi það í vanda og hafði því samband við Neyðarlínuna.
Björgunarsveitarmenn snéru því við frá rifinu og veiðimennirnir komu sér sjálfir í land.
Meðfylgjandi myndir voru teknar í útkallinu nú áðan. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Hér má sjá mennina í Lambarifi.
Bátur Björgunarsveitarinnar Ægis á siglingu úti fyrir Garðskaga. Þrátt fyrir gott veður er talsverður sjór.
Björgunarbáturinn á kemur að landi í Gerðum.