Vonumst eftir batamerkjum
Flugþjónustan á Keflavíkurflugvelli mun segja upp 80 til 100 manns í 70 – 75 stöðugildum. Starfsmenn fyrirtækisins eru tæplega 500 talsins. Ástæða uppsagnanna er fyrirsjáanlegur mikill samdráttur í flugi á hausti komanda. Þetta kemur fram á vef Vinnumálastofnunar.
„Við gerum okkur vonir um að eitthvað af þessum uppsögnum verði dregnar til baka. Þeir sem eru með lengstan uppsagnarfrestinn í þessum hópi hafa þrjá mánuði. Við vonum að það verði einhver batamerki á þessum tíma þannig að allar þessar uppsagnir komi ekki til framkvæmda,“ sagði Kristján Gunnarsson, formaður VSFK í samtali við VF.
Stór hluti starfsmanna Flugþjónustunnar eru erlendir og aðspurður segir Kristján að þeir séu í meirihluta þeirra starfsmanna sem nú verður sagt upp. Hann segir að við uppsagnir sem þessar taki fyrirtækin yfirleitt mið af starfsaldri, reynslu og frammistöðu starfsmanna.
„Hins vegar er margt gott að gerast í atvinnulífinu, við megum ekki gleyma því. Það var t.d. verið að kynna fyrstu drögin af þessari kísilmálmverksmiðju. Auðvitað fara ekki t.d. konur úr flugeldhúsinu út í Helguvík að grafa fyrir grunni eða sprengja fyrir álveri. Konur standa verr að vígi á atvinnumarkaði hér á Suðurnesjum og þær hafa lengi verið í meirihluta þeirra sem eru á atvinnuleysiskrá. Það þarf að taka á því,“ sagði Kristján.
Samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun eru 288 konur nú atvinnulausar á Suðurnesjum en 108 karlar.