Vonskuveður í nótt og fyrramálið
Samkvæmt veðurstofu er spáð SA-stormi sunnanlands og vestan í nótt og fyrramálið. Á Höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og víðar um suðvestanvert landið er útlit fyrir að vindurinn verði í hámarki um það bil frá kl. 6 til kl. 9. Veðurhæðin verður allt að 25 m/s og enn hvassara í hviðum, svo sem í efri byggðum Reykjavíkur og Kópavogs, Vallahverfinu og Áslandi í Hafnarfirði sem og á Ásbrú í Reykjanesbæ.
Mesta vindhæðin er á þeim tíma þegar einstaklingar eru á leið til vinnu og skóla.Er fólk hvatt til að taka fullt tillit til veðursins. Fylgja börnum í skóla, taka tillit til vinds þegar bílhurðir eru opnaðar þar sem hætta er á að þær fjúki upp eða skelli á fólk og hafi í huga, sér í lagi við háar byggingar, að vindur getur feykt fólki til. Jafnframt er mikilvægt að huga að lausum munum sem eru utandyra. Undanfarið hefur norðanátt verið ríkjandi í þeim óveðrum sem gengið hafa yfir og margir því sett grill og annað lauslegt í skjól hlémegin við hús sín út frá norðanáttinni. Nú er spáð SA-stormi og mikilvægt að fólk endurmeti hvort lausamunir séu í skjóli út frá vindátt úr suð-austri.