Vonast til að kolinn gefi sig um leið og kólnar
„Fiskiríið mætti vera betra,“ sagði Eiríkur Þorleifsson skipstjóri á snurvoðabátnum Árna KE-89 þegar hann var spurður um kolaveiðina á Faxaflóanum sem hófst þann 1. september. „Þetta er verra en það var í fyrra og hitteðfyrra. Þetta er spurning með að fá norðanbál og að það kólni – þá fer veiðin að glæðast eða það segja gömlu karlarnir allavega,“ sagði Eiríkur og brosti en þeir voru með 3 tonn af sandkola og rauðsprettu eftir daginn.
Eiríkur hefur verið á sjónum í 40 ár eða frá því hann var 15 ára og segir hann að fyrstu tvö árin hafi hann verið hálfdrættingur, þ.e. þeir voru tveir á einum hlut. Eiríkur segir að þeir leggi í hann um fimm leytið á morgnana og komi í land um áttaleytið. Vinnutíminn er því nokkuð langur en þeir verða á kolanum fram til 20. desember.
Strákarnir á Árna KE-89 eru hressir og þeir tóku vel í það að stilla sér upp til myndatöku fram á bátnum. „Við lítum allir svo helvíti vel út. Finnst þér þetta ekki vera myndarlegasta áhöfn sem þú hefur séð?“ spurði Símon stýrimaður blaðamann Víkurfrétta um leið og hann vippaði sér upp á bryggjuna. Nú er það lesenda að dæma hvort áhöfnin sé sú myndarlegasta – þetta eru allavega hressir strákar.
Myndir: Gísli netamaður og Eiríkur skipstjóri að laga tógin.
Hópmynd: Frá vinstri. Eiríkur skipstjóri, Símon stýrimaður, Konráð kokkur, Gunnar háseti, Guðni vélstjóri og Gísli netamaður. VF-ljósmyndir/Jóhannes Kr. Kristjánsson.