Vonar að smáhýsin séu bara tímabundin lausn
— Sandgerðisbær kaupir fjögur smáhýsi og staðsetur við Garðveg.
„Eins og allir vita er mikil eftirspurn eftir húsnæði hér á Suðurnesjum og því miður allt of margir í erfiðri stöðu vegna þessa. Við hjá sveitarfélögunum finnum þetta, sérstaklega starfsfólk félagsþjónustunnar sem fær til sín fólk sem jafnvel er orðið heimilislaust. Hjá okkur í Sandgerði er töluverður biðlisti eftir félagslegu húsnæði og þó svo að íbúðarhúsnæði sé að fjölga í bænum er enn einhver tími í að það verði klárt. Við verðum því að bregðast við þeim bráðavanda sem er uppi núna. Því tókum við ákvörðun um að kaupa þessi smáhýsi. Auðvitað vonum við að þessi staða sem er uppi núna á húsnæðismarkaði sé bara tímabundið ástand og við getum þá selt þessi smáhýsi aftur þegar ekki verður þörf fyrir þau,“ segir Ólafur Þór Ólafsson, forseti bæjarstjórnar Sandgerðis í samtali við Víkurfréttir.
Bæjarráð Sandgerðis hefur samþykkt að festa kaup á fjórum smáhýsum. Húsin verða leigð út sem félagslegt húsnæði og til að mæta brýnni þörf fyrir þannig húsnæði í Sandgerðisbæ.
Húsin fjögur verða sett niður á lóð og grunni norðan Þekkingarsetursins við Garðveg.
Ólafur Þór sagði í samtali við Víkurfréttir að smáhýsin væru á vegum Sandgerðisbæjar til að vinna á löngum biðlista eftir félagslegu húsnæði. Sandgerðisbær væri ekki að opna á almenna smáhýsabyggð með þessari framkvæmd. Húsin fjögur kosta Sandgerðisbæ um 30 milljónir króna. Um er að ræða tvær húsastærðir, tvö 24 fermetra hús og tvö 48 fermetra. Húsin eru samsett úr gámaeiningum frá Hafnarbakka. Húsin eru vönduð og standast allar kröfur byggingarreglugerðar um einangrun, hljóðvist, frágang og öryggi.
Sandgerði er, eftir því sem næst verður komist, fyrsta sveitarfélagið til að bregðast við húsnæðisvanda með því að setja upp smáhýsi.
Smáhýsin verða sett niður á þennan sökkul við Þekkingarsetrið í Sandgerði. Þarna er auðvelt að komast í allar lagnir sem þarf, rennandi vatn, rafmagn og fráveitu. VF-mynd: Hilmar Bragi.