Vonandi hrundið úr vegi síðustu ríkishindruninni
„Þar með er vonandi hrundið úr vegi síðustu ríkishindrun í þessu máli. Nú þarf að ganga formlega frá orkusamningunum bæði við HS Orku og Orkuveituna. Mér skilst að úr þessu þurfi það ekki að taka langan tíma,“ segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, aðspurður um viðbrögð við úrskurði umhverfisráðherra í málum svokallaðrar Suðvesturlínu.
Árni hefur það eftir forsvarsmönnum Norðuráls að fjármögnun álversins í Helguvík sé ekkert vandamál. „Þetta þýðir að við eigum að geta sett byggingarframkvæmdir á fullt í vor og ráðið hundruð manna til verkefnisins. það eru fleiri ánægjulegar niðurstöður atvinnuverkefna framundan, sem við höfum verið að vinna að, svo við getum áfram haft skynsemi í okkar bjartsýni,“ segir Árni.