Vogaskóli kemur vel út úr könnun á verði á skólamat
Neytendastofa gerði fyrir skemmstu könnun á verði skólamáltíða sem náði til 124 grunnskóla í 39 sveitarfélögum. Stóru Vogaskóli er einn af tveimur grunnskólum í könnuninni þar sem skólamáltíðir eru gjaldfrjálsar.
Könnun þessi var gerð að hluta til vegna þess að Neytendastofu hafði borist fjölmargar verðlagsábendingar vegna mötuneyta. Af þessu tilefni ákvað Neytendastofa að gera könnun á því verði sem nemendur greiða fyrir hádegisverð í grunnskólum landsins og hvort skýrir skilmálar gildi í grunnskólum um verðmyndun og verðlagningu á matsölu til nemenda.
Reykjanesbær kemur ágætlega út í könnuninni og er með lægsta verð þeirra sveitarfélaga í könnuninni þar sem nemendur greiða fyrir hráefni og hluta af kostnaði, eða 185 krónur á dag.
Eitt annað sveitarfélag af Suðurnesjum, Grunnskóli Grindavíkur, tók þátt í könnuninni. Grindavík, ásamt Garðabæ, er eitt af tveimur sveitarfélögum í könnuninni þar sem nemendur bera allan kostnað. Hann nemur alls um 338 kr. á dag.
Hvað Garð og Sandgerði áhrærir eru verðin þar einnig með lægra móti. Á heimasíðu Sandgerðisskóla segir að máltíðir séu niðurgreiddar af Sandgerðisbæ en verðið er tvískipt eftir aldri.
1.-6. bekkur borgar kr. 144 kr. á máltíðina á meðan 7.-10. bekkur greiðir kr. 171 kr.
Samkvæmt upplýsingum hjá skrifstofu Skólamatar ehf. greiða foreldrar barna í Gerðaskóla 183 kr. á máltíð.
Ítarefni má finna með því að smella hér.
VF-mynd úr safni: Árni Sigfússon, bæjarstjóri, settist niður með skólabörnum hér um árið og líkaði skólamaturinn vel.