Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Vogar vilja ræða sameiningu við hin sveitarfélögin
Bæjarstjórn sveitarfélagsins Voga.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 21. september 2023 kl. 14:27

Vogar vilja ræða sameiningu við hin sveitarfélögin

Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga samþykkti á fundi sínum í gær að hefja samtal við nágrannasveitarfélögin og kanna hvort áhugi sé til staðar hjá þeim til að ræða mögulega sameiningarkosti. 

Gunnar Axel Axelsson, bæjarstjóri segir ákvörðun bæjarráðs rökrétt framhald af þeirri vinnu sem fram fór á síðasta kjörtímabili og sjálfsagt og eðlilegt að fulltrúar sveitarfélaganna ræði um sameiginleg málefni og framtíðarþróun svæðisins. 

„Á síðasta kjörtímabili ákvað þáverandi bæjarstjórn að hefja vinnu við greiningu sameiningarkosta og eiga opið samtal við íbúa sveitarfélagsins um málefnið. Ákvörðun bæjarráðs núna er í raun bara rökrétt framhald af þeirri vinnu, enda er verkefninu ekki lokið og engin ákvörðun verið tekin um hvort tilefni sé til að hefja formlegar viðræður við eitthvert þeirra sveitarfélaga sem voru til skoðunar í valkostagreiningunni. Á grundvelli fyrrnefndrar vinnu hefur bæjarráð nú ákveðið að fylgja verkefninu eftir og efna til opins samtals við nágrannasveitarfélögin með sameiginlega framtíðarsýn að leiðarljósi. Hvort það samtal mun leiða til þess að sveitarfélögin, tvö eða fleiri, ákveða að hefja formlegar viðræður um sameiningu verður bara að koma í ljós en við teljum sjálfsagt að eiga þetta samtal við fulltrúa nágrannasveitarfélaganna sem eiga auðvitað í mjög nánu og góðu samstarfi í dag á fjölmörgum sviðum,“ segir Gunnar Axel, bæjarstjóri og bætir við að íbúarnir eigi að hafa og hafi síðan síðasta orðið. Það sé ekki síður mikilvægt að þeir séu virkir þátttakendur í slíku samtali.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

En telur Gunnar að sameining sveitarfélaga efli svæðið?

„Hvort það sé rökrétt skref og til eflingar svæðisins að dýpka það samstarf enn frekar með mögulegri sameiningu eins eða fleiri sveitarfélaga er spurning sem er sjálfsagt að spyrja og ræða, enda höfum við sama verkefni með höndum og sömu markmið sem snúast í grunninn um það að skapa íbúum svæðisins sem best lífsskilyrði. Það má alveg örugglega færa mjög góð rök fyrir því að sameinuð muni þessi sveitarfélög hafa talsvert meiri slagkraft og svæðið sem slíkt en það eru a.m.k. jafn mörg rök sem hníga í hina áttina og svona samtal þarf að vera nægilega opið til að hægt sé að setja öll þau sjónarmið á borðið,“ segir bæjarstjórinn í Vogum.