Vogar vilja halda Unglingalandsmót UMFÍ
Ungmennafélagið Þróttur í Vogum (UMFÞ) hyggst sækja um að halda Unglingalandsmót UMFÍ árið 2012 en þá verður félagið 80 ára. Samstarfsyfirlýsing sveiktarfélagsins og UMFÞ vegna umsóknarinnar var til umfjöllunanar á síðasta bæjarstjórnarfundi þar sem samþykkt var með fjórum atkvæðum meirihlutans að styðja umsóknina. Fulltrúar minnihlutans sátu hjá.
Minnihlutinn (H) lagði fram tillögu þess efnis að málinu yrði frestað þar til kostnaðaráætlun lægi fyrir. Í greinargerð með tillögunni segir að H-listinn styðji heilshugar þær metnaðarfullu áætlanir sem uppi eru um mótið en fulltrúar hans telji það skyldu sína að ganga úr skugga um að bæjarsjóður sé í raun og veru í stakk búinn til að axla þá ábyrgð sem mót af þessari stærðargráðu hafi í för með sér.
Fulltrúar H-listans benda á að í umsókninni komi m.a. fram að byggja þurfi 6 knattspyrnuvelli auk frjálsíþróttaaðstöðu. Trúlega þurfi einnig að byggja löglega keppnislaug fyrir mótið auk þess sem sveitarfélagið skuldbindi sig til að útvega næg tjaldstæði með tilheyrandi aðstöðu.
Af þessum ástæðum lagði H-listinn til að gerð yrði gróf kostnaðaráætlun áður en afstaða yrði tekin til málsins.
Tillagan var felld með fjórum atkvæðum meirihlutans (E) sem lagði á móti fram tillögu þess efnis að bæjarstjórn stytddi heilshugar umsóknina og skuldbindi sig til að leggja sitt af mörkum svo mótið yrði sem glæsilegast. Sú tillaga var samþykkt með fjórum atkvæðum meirihlutans en minnihlutinn sat hjá.