Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vogar þrefaldast á næstu árum
Séð yfir hluta Voga á Vatnsleysuströnd. Það eru stórir tímar framundan hjá Vogamönnum. VF-mynd/hilmarbragi.
Föstudagur 27. apríl 2018 kl. 06:00

Vogar þrefaldast á næstu árum

-150 íbúða hverfi að fara í byggingu í nýjum miðbæ. Framkvæmdir við aðrar 800 íbúðir hefjast á næsta ári

Gera má ráð fyrir að íbúafjöldi þrefaldist á næstu árum og áratug í Vogum á Vatnsleysuströnd. Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri segir Vogamenn finna fyrir mikilli eftirspurn eftir húsnæði og vinnuafli. Framkvæmdir við byggingu 150 íbúða í nýjum miðbæjarkjarna er að hefjast en gatnagerð er nýlokið.

„Við gerum ráð fyrir því að það hverfi byggist hratt upp en í kjölfarið fylgir risaverkefni þar sem gert er ráð fyrir byggingu 800 íbúða,“ segir Ásgeir. Í því byggingarátaki sem verður á gamalli bújörð sem hét Grænaborg, sem fjárfestar og aðilar í byggingageiranum hafa keypt, verða þær íbúðir byggðar á næstu árum eða áratug. Þar er búið að skipuleggja 450 íbúðir sem verða í byggingu á næstu árum en með breytingu á deiliskipulagi er gert ráð fyrir byggingu allt að 800 íbúða. Sú uppbygging muni hefjast á næsta ári og stefna verktakar á að gera það í áföngum á næsta áratug. Þá verði íbúafjöldi búinn að þrefaldast frá því sem nú er en um 1200 manns búa í Vogum um þessar mundir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Það eru auðvitað margar og ánægjulegar áskoranir sem bíða okkar varðandi þessa uppbyggingu. Við höfum eytt miklu púðri í undirbúning vegna þessara framkvæmda og ljóst að verkefnið er nokkuð ærið varðandi innviði,“ segir Ásgeir.

Um 400 íbúðir eru í sveitarfélaginu núna en staðsetning Voga hefur heillað marga en hún er um það bil mitt á milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar. Þar liggja miklir vaxtamöguleikar. Í Vogum eru nokkur öflug fyrirtæki í matvælaframleiðslu, eggjabú, svínakjötframleiðsla auk fiskeldis og fiskvinnslu en í síðustu viku opnaði Ísaga, 99 ára gamalt fyrirtæki nýja súrefnis- og köfnunarefnisverksmiðju og mun færa alla starfsemi í sveitarfélagið á næstu árum. „Það hefur verið gróska í þessum fyrirtækjum og síðan var ánægjulegt að sjá Ísaga opna í sveitarfélaginu. Þannig að það er óhætt að segja að það sé vöxtur í Vogunum þessa stundina,“ sagði Ásgeir bæjarstjóri.

Ásgeir bæjarstjóri er til hægri, hann var viðstaddur opnun nýrrar súrefnis- og köfnunarefnisverksmiðju í Vogum nýlega. VF-mynd/pket.