Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vogar stofna til vinabæjartengsla við Fjaler í Noregi
F.v. Ola Hovland, Arve Helle, Oddur Ragnar Þórðarson og Ásgeir Eiríksson. Mynd af veg Sveitarfélagsins Voga.
Föstudagur 30. ágúst 2013 kl. 09:39

Vogar stofna til vinabæjartengsla við Fjaler í Noregi

Fyrr á þessu ári samþykkti bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga að stofna til vinabæjarsamskipta við Sveitarfélagið Fjaler á vesturströnd Noregs, í fylkinu Sogn og Fjordane. Fjöldi íbúa er tæplega 3 þúsund og sveitarfélagið er um 400 km2 að flatarmáli. Aðdragandi málsins er nokkuð langur, en hugmyndin kom fyrst til tals árið 2008. Sveitarfélagið Fjaler hafði á sínum tíma frumkvæði að því að óska eftir vinabæjarsamstarfi við sveitarfélag á Íslandi, gjarnan af svipaðri stærð og í nálægð við heimabæ fyrsta landnámsmannsins, Ingólfs Arnarsonar. Samkvæmt sögulegum heimildum kom Ingólfur frá Dalsfirði, þar sem sveitarfélagið Fjaler er. Árið 1961 gaf íslenska þjóðin afsteypu af styttu Ingólfs Arnarsonar sem stendur á Arnarhóli, og gerð var af myndhöggvaranum Einari Jónssyni. Styttan er staðsett í Rivedal við Dalsfjörð. Það eru því sterk söguleg tengsl milli Dalsfjarðar Í Noregi og Íslands.

Miðvikudaginn 28. ágúst 2013 var efnt til móttöku í Álfagerði að afloknum fundi bæjarstjórnar, í boði Norræna félagsins í Vogum. Sérstakir gestir voru þeir Arve Helle, forseti bæjarstjórnar Fjaler, og Ola Hovland, bæjarstjóri. Þeir Arve Helle og Oddur Ragnar Þórðarson, forseti bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga undirrituðu samstarfsyfirlýsingu sveitarfélaganna um vinabæjarsamstarfið, að viðstöddum fjölda gesta. Meðal gesta var Ragnheiður Þórarinsdóttir, formaður Norræna félagsins á Íslandi, Unnar Stefánsson fyrrum starfsmaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og umsjónarmaður með vinabæjartengslum, fulltrúar frá Norrænu félögunum í Garði og Reykjanesbæ, Norðmenn búsettir í sveitarfélaginu Vogum, stjórn Norræna félagsins í Vogum, bæjarfulltrúar sveitarfélagsins Voga og fleiri.

Flutt voru ávörp þar sem m.a. kom fram að áhersla sveitarfélaganna í hinu nýja vinabæjarsamstarfi verði einkum á vettvangi ungmenna og menningarmála. Jafnframt munu fulltrúar sveitarfélaganna á næstu vikum og mánuðum þróa með sér hugmyndir um með hvaða hætti samstarfið geti þróast til gagns og ánægju fyrir íbúa sveitarfélaganna.

Norsku gestirnir komu færandi hendi. Þeir afhentu sveitarfélaginu tvær bækur að gjöf, annars vegar bókina „Dalsfjordboka“ sem fjallar um byggðalagið og hins vegar nýlega bók sem heitir „Ingólfr“ og vísar til tengsla landnámsmannsins við Fjaler og Ísland. Bækurnar verða afhentar bókasafninu og aðgengilegar þar fyrir gesti safnsins.

Fleiri myndir í þessari frétt af vef Voga.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024