Vogar: Starfsfólk ánægt í vinnu
Sveitarfélagið Vogar kom vel út í viðhorfskönnun sem var gerð meðal starfsfólks bæjarfélagsins fyrir skemmstu.
Þar var leitast við að kanna viðhorf starfsfólks bæjarins fyrir starfi sínu, stjórnunarhátta og starfsanda innan sveitarfélagsins, en til samanburðar var einnig gerð könnun á hópi starfmanna ríkisstofnana. Farið er yfir helstu niðurstöður á síðu sveitarfélagsins.
Meðal þess helsta sem kom fram í könnuninni, sem var unnin í samvinnu við ParX Stjórnsýsluráðgjöf IBM, var að starfsandi var góður og starfsánægja mikil hjá starfsfólki Voga og mældist betri en hjá ríkisstarfsfólki.
Þá þóttu jafnréttismál í góðum farvegi hjá bænum og gott jafnvægi á milli vinnu og einkalífs og þjónusta var forgangsverkefni þeirra sem þar starfa frekar en hjá ríkisstarfsmönnum í sömu könnun.
Það sem skyggði helst á var annars vegar að vinnuálag og streita er meiri hjá starfsfólki Voga en meðal starfsmanna ríkisstofnanna og hollusta og tryggð starfsmanna við vinnustaðinn er minni en hjá ríkinu.
Þannig eru næstu skref, að því er fram kemur á vefsíðu Voga, að byggja enn frekar á kostunum og leita leiða við að draga úr veikleikunum. Fyrstu aðgerðir í þá átt voru hvatagreiðslur til starfsmanna, sem bæjarráð samþykkti ekki alls fyrir löngu.
Verða niðurstöðurnar m.a. notaðar til að mynda grunn að nýrri starfsmannastefnu en einnig til að greina þjónustu og stjórnsýslu hjá bænum sem hefur verið í miklum vexti undanfarin ár og fjölgaði m.a. um 20% síðustu tvö ár og eru íbúar nú um 1200 talsins.