Vogar standast ekki jafnvægisreglu
– Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga gerir athugasemd
Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur gert athugasemd við ársreikning Sveitarfélagssins Voga fyrir árið 2013 með bréfi dagsettu 28. ágúst 2014. Nefndin bendir á að eftir yfirferð á ársreikningi 2013 sé það niðurstaða nefndarinnar að sveitarfélagið standist ekki jafnvægisreglu 1. tl. 64.gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
Óskað er eftir útskýringum sveitarstjórnar á frávikum í rekstri fyrir árið 2013 í samanburði við fjárhagsáætlun ásamt upplýsingum um fyrirhugaðar aðgerðir til að standast kröfur laganna. Einnig óskar nefndin eftir gerð útkomuspár fyrir árið 2014 með samanburði við fjárhagsáætlun 2014.
Á fundi bæjarráðs Sveitarfélagsins Voga þann 8. október sl. var bæjarstjóra falið að svara erindi eftirlitsnefndarinnar.
64. grein sveitarstjórnarlaga er eftirfarandi:
64. gr. Viðmiðanir um afkomu og fjárhagsstöðu sveitarfélaga.
Sveitarstjórn ber að sjá til þess að rekstri, fjárfestingum og ráðstöfun eigna og sjóða sé þannig hagað á hverjum tíma að sveitarfélagið muni til framtíðar geta sinnt skyldubundnum verkefnum sínum.
Skyldu skv. 1. mgr. skal sveitarstjórn fullnægja m.a. með því að:
1. samanlögð heildarútgjöld til rekstrar vegna A- og B-hluta í reikningsskilum skv. 60. gr. séu á hverju þriggja ára tímabili ekki hærri en nemur samanlögðum reglulegum tekjum, og
2. heildarskuldir og skuldbindingar A- og B-hluta í reikningsskilum skv. 60. gr. séu ekki hærri en nemur 150% af reglulegum tekjum.