Vogar: Skemmdarvargar leika lausum hala
Skemmdarvargar og innbrotsþjófar leika lausum hala í Vogum og hafa síðan í sumar valdið tjóni upp á hundruði þúsunda á eigum fólks þar í bæ. Málin eru öll óupplýst en ákveðnir einstaklingar hafa verið yfirheyrðir samkvæmt upplýsingum VF.
Brotist var inn í áhaldahús bæjarfélagsins í endaðan júlí. Þaðan var stolið tölvu og jeppabifreið sem stóð utan við húsið. Jeppinn var síðan notaður til að aka á hurð verslunar N1, sennilega til fara þar inn og komast yfir góss. Þjófavarnarkerfi verslunarinnar fældi þjófana hins vegar frá en talsvert tjón varð bæði á jeppanum og hurðabúnaði verslunarinnar.
Um svipað leyti var brotist inn í tvö vélaverktæði í bæjarfélaginu. Þjófarnir hurfu á brott með peningakassa af öðru verkstæðinu og tölvubúnað af hinu. Peningakassinn fannst en þjófunum hafði ekki tekist að opna hann.
Í júlí voru einnig unnin skemmdarverk í Stóru – Vogaskóla þegar myndavélar og ljós voru brotin niður. Það tjón var upp á 200 þúsund krónur.
Aðfaranótt 13. október sl. er síðan ráðist á tvo bíla, jeppa og fólksbíl, sem stóðu utan við heimahús í bæjarfélaginu. Eitthvað egghvasst var notað til að rispa báða bílana þannig að heilsprauta þarf þá báða. Einnig voru speglar brotnir af þeim. Tjónið nemur hundruðum þúsunda.
Samkvæmt upplýsingum VF hefur eigandi bílanna verið sérstakur skotspónn skemmdarvarganna því fimm dögum síðar var miklu magni af sykri hellt í bensíntank annars bíls sem hann hafði lagt fyrir utan smábátahúsið á meðan fundur stóð yfir í húsinu. Fjórtan aðrir bílar stóðu fyrir utan húsið og voru þeir allir látnir í friði.
Athugull fundarmaður koma auga á sykurklessu við bílinn áður en eigandinn ræsti hann. Ekki hefði þurft að spyrja að afleiðingunum hefði sykurinn komst inn í eldsneytistkerfi og vél bílsins. Engu að síður þurfti að rífa undan honum bensíntankinn, hreinsa hann upp og skipta um allar síur.
Um miðja síðustu viku var aftur unnið tjón á eigum þessa sama manns þegar skrúfa var brotin á sportbát sem stóð í bílastæði við heimili mannsins.
Öll þessi mál munu vera óupplýst eftir því sem VF kemst næst.