Vogar og Grindavík samhljóma vegna gjaldtöku fyrir sorp
Bæjarráð Grindavíkurbæjar og bæjarráð Sveitarfélagsins Voga eru samhljóma í afgreiðslu sinni á tillögu bæjarstjórnar Reykjanesbæjar þar sem lagt er til að frá og með næstu áramótum verði hætt að innheimta gjöld af einstaklingum sem koma með úrgang á gámaplön Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja.
Bæjarráðin í Vogum og Grindavík senda bæði frá sér eftirfarandi texta í afgreiðslu sinni á málinu: „Með vísan til svokallaðrar mengunarbótareglu (enska:Polluter pays principle) telur bæjarráð [Grindavíkurbæjar/Voga] ekki óeðlilegt að þeir sem losa gjaldskylt sorp greiði fyrir þá þjónustu á gámaplönum Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja. Ef rekstur sorpeyðingarstöðvarinnar hefur svigrúm til lækkunar gjalda telur bæjarráð eðlilegt að sorpeyðingargjöld séu lækkuð almennt á íbúa á Suðurnesjum“.