Vogar: Nýr miðbæjarkjarni verður byggður upp
Rammaskipulagstillaga að nýjum miðbæjarkjarna í Vogum hefur verið lögð fram. Um er að ræða svæði sem afmarkast af Stapavegi, Vogabraut og Iðndal, við innkeysluna í bæinn. Sú staðsetning er miðsvæðis í bænum, ekki síst með tilliti til fyrirhugaðs hverfis norðan við bæinn. Auk þess er gott aðgengi að svæðinu frá Reykjanesbraut. Bæjaryfirvöld telja að með því séu miklir möguleikar fólgnir í því að reka verslun og aðra þjónustu í miðbæ Voga.
Gert er ráð fyrir að á svæðinu verði allt að 130 íbúðir í eins til tveggja hæða rað- og parhúsum og allt að sex hæða fjölbýlishúsum. Mikil áhersla var lögð á að þau hús sem standa efst í byggingareitnum, þ.e. fyrstu húsin sem fólk sér á leið inn í bæinn myndi ákveðið kennileiti. Þau mega vera hærri en önnur hús í hverfinu og er gert ráð fyrir að þau verði allt að sex hæðir og með bílakjallara. Slíkar eignir hafa notið mikilla vinsælda hjá fólki sem hefur komið börnum sínum á legg og vill búa í húsnæði með gott útsýni. Íbúar húsanna munu hafa frábært útsýni yfir Suðurnesin, Snæfellsnes og að sjálfsögðu Keili, segir í greinargerð með tillögunni.
Við horn Stapavegar og Vogabrautar verður hinn eiginlegi miðbæjarkjarni með verslun og þjónustu. Gert er ráð fyrir því að í fyrsta áfanga verði reist 1.500 til 2.000 m2 hús á tveimur til þremur hæðum. Þar fyrir framan verði torg og reiturinn hannaður þannig að við torgið njóti sólar sem mest.
Meginmarkmið verkefnisins er að móta heilsteypt svæði fyrir verslun, þjónustu og íbúðabyggð.
Teikningar og nánari upplýsingar er hægt að nálgast á heimasíðu Voga: www.vogar.is