Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vogar: Neikvæð rekstrarniðurstaða um 22 milljónir kr.
Þriðjudagur 6. nóvember 2012 kl. 03:37

Vogar: Neikvæð rekstrarniðurstaða um 22 milljónir kr.

Tillaga að fjögurra ára áætlun Sveitarfélagsins Voga fyrir árin 2013-2016 var lögð fram á síðasta bæjarstjórnarfundi í Vogum. Bæjarstjóri fylgdi tillögunni úr hlaði og gerði grein fyrir helstu atriðum áætlunarinnar.

Tillagan samanstendur af áætluðum rekstrarreikningi, efnahagsreikningi, yfirliti um sjóðsstreymi, lykiltölum, samanburði málaflokka milli ára ásamt sundurliðunum fyrir hvert ár. Með tillögunni er einnig lagt fram yfirlit um almennar forsendur fjárhagsáætlunarinnar, minnisatriði við yfirferð bæjarráðs á vinnufundi þann 24. október sl. ásamt fleiri gögnum.

Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir að tekjur ársins 2013 verði liðlega 750 miljónir króna, en að gjöld án fjármagnsliða verði um 733 miljónir króna. Niðurstaða án fjármagnsliða er því áætluð jákvæð um tæplega 18 milljónir króna. Fjármagnsliðir eru hins vegar áætlaðir um 40 miljónir króna, þannig að áætluð rekstrarniðurstaða er neikvæð um rúmar 22 miljónir króna. Áætlunin fyrir árin 2014 - 2016 er með svipaðar niðurstöður, enda ekki gert ráð fyrir magnbreytingum á áætlunartímabilinu.

Svohljóðandi bókun var lögð fram af forseta bæjarstjórnar fyrir hönd meirihlutans:

„Í fjárhagsáætlun 2013 er haldið áfram á þeirri jákvæðu braut sem verið hefur síðasta ár. Í fyrra lauk nokkuð löngu niðurskurðartímabili og fjárhagsáætlun 2013 endurspeglast sú skoðun að lengra verði ekki komist í niðurskurði í einstökum deildum. Undanfarin ár hefur góður árangur náðst í aðhaldsaðgerðum og er það ekki síst að þakka skilning starfsmanna bæjarins á mikilvægi aðhaldsaðgerða þá samstöðu hafa deildarstjórar bæjarins átt stóran þátt í að skapa og eiga þeir heiður skilinn fyrir árvekni sína og eftirfylgni. Sú fjárhagsáætlun sem hér er lögð fram er ekki fullunninn og á væntanlega eftir að taka breytingum milli umræðna“.

Svohljóðandi bókun var lögð fram af fulltrúum minnihlutans:

„Við viljum byrja á því að þakka bæjarstjóranum fyrir ágæta yfirferð og vel framsetta áætlun. Þegar rýnt er í fjárhagsáætlunina kemur fram ótrúlegt stefnu og metnaðarleysi meirihlutans. Nú þegar fyrri umræða fer fram um þetta mikilvægasta verkfæri stjórnenda sveitarfélagsins liggur að baki einn fundur um fjárhagsáætlun næsta árs. Í minnisblað bæjarráðs sem liggur fyrir þessum fundi eru heilar tvær tillögur frá meirihlutanum, sem báðar eru til að auka verulega útgjöld sveitarfélagsins án þess að tekjur komi á móti.
Metnaðarleysið er algjört, við bjóðum fram krafta okkar svo hægt verði að leggja fram metnaðarfulla fjárhagsáætlun að mánuði liðnum“.

Tillögunni er vísað til síðari umræðu á bæjarstjórnarfundi 28. nóvember 2012. Samþykkt samhljóða.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024