Vogar kjarnorkuvopnalaust sveitarfélag
Sveitarfélagið Vogar er kjarnorkuvopnalaust svæði, eftir bestu vitund bæjarfulltrúa sveitarfélagins. Þetta kom fram í yfirlýsingu sem var lögð fram og samþykkt samhljóða á síðasta bæjarstjórnarfundi.
Tildrög málsins voru þau að bréf frá Samtökum herstöðvarandstæðinga kom inn á borð bæjarstjórnar þar sem skorað var á bæjarstjórn Voga að lýsa því yfir að sveitarfélagið sé kjarnorkuvopnalaust og alfarið á móti stríðsrekstri og mannréttindabrotum.
Bæjarfulltrúinn Inga Sigrún Atladóttir lagði í framhaldi af því fram tillögu um að sveitarfélagið móti sér stefnu í friðar- og öryggismálum og fresti því að taka afstöðu til tillögu herstöðvarandstæðinga.
Þá lagði Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri, fram eftirfarandi breytingartillögu:
Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga lýsir því að sveitarfélagið er, eftir bestu vitund bæjarfulltrúa, kjarnorkuvopnalaust svæði og bæjarstjórn felur félagsmála- og jafnréttisnefnd að vinna að mannréttinda- og friðarstefnu sveitarfélagsins.
Róbert sagði í samtali við Víkurfréttir að ákveðið hafi verið að afgreiða þetta bréf fyrst það var komið inn á borð til þeirra. Fjölmörg önnur sveitarfélög hafi lýst yfir kjarnorkuvopnaleysi, en engin á Suðurnesjum eftir því sem hann best vissi.
Samkvæmt heimildum Víkurfrétta er ekki vitað til þess að bæjarbúar í Vogum lumi á kjarnaoddum í skúmaskotum né hafi í hyggju að koma höndum yfir slíka gripi.