Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vogar gera ráð fyrir tekjuafgangi
Föstudagur 29. nóvember 2013 kl. 11:57

Vogar gera ráð fyrir tekjuafgangi

Sveitarfélagið Vogar gerir ráð fyrir tekjuafgangi á næsta ári, samkvæmt tillögu að fjárhagsáætlun ársins 2014 sem var til fyrri umræðu í vikunni.

Tillagan gerir ráð fyrir að rekstur bæjarsjóðs (A hluti) fyrir árið 2014 skili tekjuafgangi að fjárhæð 10,7 m.kr., en að samstæðan (A og B hluti) skili rekstrarafgangi að fjárhæð 15,6 m.kr.

Í greinargerðinni kemur m.a. fram að gert er ráð fyrir óbreyttu álagningarhlutfalli útsvars, 14,48%. Áætlunin gerir ráð fyrir að álagning fasteignaskatts hækki í 0,5% af fasteignamati, sem er lögbundið hámark (án álags). Til að vega upp áhrif þessarar hækkunar fasteignaskatts gerir tillagan jafnframt ráð fyrir lækkun vatnsskatts úr 0,19% í 0,08% af fasteignamati.

Óvissa ríkir í áætluninni um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, þ.e. tekjujöfnunarframlög og framlög vegna fasteignaskatta. Áætlunin gerir ráð fyrir að almennar verðlagshækkanir milli ára verði 3%, sem jafnframt á við um áætlaða þróun launakostnaðar. Þá er gert ráð fyrir að gjaldskrá sveitarfélagsins hækki um 5% milli ára.

Rekstur sveitarfélagsins er sem fyrr viðkvæmur. Þótt afkoman sé réttu megin við strikið má lítið út af bera svo það snúist á verri veg, svo brýnt er að áframhaldandi aðhalds sé gætt í öllum rekstrarþáttum. Fækkun íbúa er einnig áhyggjuefni, en íbúum sveitarfélagsins hefur fækkað ár frá ári frá árinu 2008. Tekjuöflunarmöguleikar sveitarfélagsins takmarkast því nokkuð við þessa staðreynd. Sjóðstreymi sveitarsjóðs er á hinn bóginn viðunandi og fjárfestingageta því ásættanleg. Fjárfestingaáætlun gerir ráð fyrir endurnýjun gatna, stækkun kirkjugarðs, deiliskipulags í Keilisnesi og kaup á eftirlitsmyndavélum.

Öll skilyrði fjármálareglna sveitarstjórnarlaganna hafa nú verið uppfyllt af sveitarfélaginu, tveimur árum eftir gildistöku laganna. Skuldahlutfall er vel innan viðmiðunarmarka og ákvæði um jöfnuð í rekstri eru einnig uppfyllt. Þrátt fyrir viðkvæma rekstrarniðurstöðu hefur því tekist að halda rekstrinum innan samþykktra viðmiðunarmarka.

Forseti bæjastjórnar gerði grein þeim hugmyndum fulltrúum H-listans að fjárhagsaðstoð sé lækkuð um 30% í stað 10% // Hjón 229þ og einstaklingar 140þ (kvarði) Sett verði hóflegt 5500kr gjald á mánuði fyrir mat í hádeginu í Stóru-Voga skóla.

Tekin verði til skoðunar tillaga Stóru-Vogaskóla að byggingu leiksvæðis við skólann. Meistaraflokkur Þróttar verði styrktur um 2,5 milljónir króna. Hópurinn leggur til að bæjarstjóri vinni að tillögum um hækkun lágmarksaldurs í leikskólann Suðurvelli.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024