Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vogar: Fjölmenni á fyrsta bæjarstjórnarfundi
Föstudagur 13. janúar 2006 kl. 16:49

Vogar: Fjölmenni á fyrsta bæjarstjórnarfundi

Fyrsti fundur bæjarstjórnar í sveitarfélaginu Vogum fór fram í Tjarnarsal í Stóru Vogaskóla í gær. Mikið fjölmenni var á þessum hátíðarfundi en um 100 manns, 10% bæjarbúa, mætti til að hlýða á fulltrúa sína og var kaffisamsæti í salnum að fundi loknum.

Vatnsleysustrandarhreppur breyttist í Voga með tilskipun frá félagsmálaráðuneytinu fyrir skemmstu, en á þessum fyrsta fundi var m.a. afgreidd fjárhagsáætlun fyrir næsta ár, farið yfir drög að nýju aðalskipulagi og skrifað undir rammasamkomulag við Búmenn og Trésmiðju Snorra Hjaltasonar um uppbyggingu á þjónustu við eldri borgara.

Fyrsta mál á dagskrá var að kjósa í bæjarráð, en í þriggja manna ráði verða: bæjarfulltrúarnir Jón Gunnarsson, Sigurður Kristinsson og Birgir Örn Ólafsson.

Í yfirferð Jóhönnu Reynisdóttur, bæjarstjóra, um fjárhagsáætlun ársins 2006 kom fram að gert er ráð fyrir 17,8 milljóna króna afgangi.
Helstu niðurstöður samstæðunnar eru eftirfarandi:
Heildartekjur: 439,6 milljónir
Gjöld: 401,7 milljónir
Þ.a. launatengd gjöld 239,5 milljónir
Niðurstaða fyrir afskr.og fjárm. 37,9 milljónir
Rekstrarniðurstaða 17,8 milljónir
Veltufé frá rekstri 43,3 milljónir
Eignir 888,3 milljónir
Skuldir og skuldbindingar 509,2 milljónir
Eigið fé 395,3 milljónir

Vegna mikillar fjölgunar og uppgangs í bænum á síðustu árum hefur fasteignamat hækkað verulega milli ára, en til að mæta þeirri hækkun var álagningarhlutfall lækkað um 17%.

Fulltrúi Landslags ehf. fór yfir stöðu aðalskipulagsmála og sýndi fundargestum yfirleitmynd af nýju hverfi sem fyrirhugað er innan við núverandi byggðarkjarna, á landi Minni Voga. Þar er gert ráð fyrir um 400 íbúða byggð sem gæti hýst allt að 100 manns.

Að lokinni kynningu ákvað bæjarstjórn að stefna til samráðsfundar, eigi síðar en í mars, þar sem íbúar gætu komið sínum skoðunum á framfæri.

VF-mynd/Þorgils. Jón Gunnarsson, forseti bæjarstjórnar, í pontu og fjöldinn fylgist með. Nánari fréttir af fundinum verða hér á vf.is á næstu dögum
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024