Vogar: Drógu til baka samningsumboð Suðurlinda við Landsnet
Meirihlutinn í bæjarráði sveitarfélagsins Voga hefur tekið þá ákvörðun að að draga til baka umboð stjórnar Suðurlinda til samninga við Landsnet um lagningu háspennulína í sveitarfélaginu.
Á fundi bæjarráðs í gærmorgun lágu fyrir nýafhentir undirskriftalistar þar sem um helmingur kosningabærra í sveitarfélaginu fer fram á íbúakosningu um raflínurnar, ætli meirihlutinn sér að ganga gegn vilja búafundar frá síðasta ári þar sem fram kom skýr andstaða gegn fyrirhuguðum loftlínum.
Íris Bettý Alfreðsdóttir, fulltrúi iminnihlutans benti á þetta á fundinum:
„Á fjölmennum íbúafundi skömmu eftir að erindi Landsnets barst bæjarstjórn lét forseti bæjarstjórnar kjósa milli þess hvort leyfa ætti raflínur ofanjarðar í sveitarfélaginu eða hvort krefjast ætti jarðstrengja til að flytja þá raforku sem Suðurnesjunum er nauðsynleg til áframhaldandi atvinnuuppbyggingar. Með þeirri ákvörðun forseta teljum við að meirihlutinn hafi afhent íbúum ákvörðunarvaldið í málinu og því séu þeir bundnir af ákvörðun íbúafundarins,“ segir í bókun sem Íris lagði fram.
Íris Bettý sat hjá við afgreiðslu málsins í gær en lagði fram fyrirspyrn þess efnis hvort meirihlutin teldi þessa ákvörðun ekki veikja stöðu sveitarfélagsins í málinu.
Fulltrúar meirihlutans töldu að svo væri ekki.
Þá spurði Íris Bettý hver hafi verið tilgangur stofnunar Suðurlinda ohf.
Fulltrúar meirihlutans vísuðu til þess að tilgangur félagsins kæmi fram í stofnsamþykkt þess.
„Í þessu framhaldi spyr maður sjálfan sig hvort nú þegar sé búið að taka ákvörðun í málinu,“ sagði Íris Bettý í samtali við VF.
Hörður Harðarson, formaður bæjarráðs, neitaði því í samtali við VF að búið væri að taka ákvörðun í málinu. Né heldur lægi fyrir samkomulag við Landsnet.
„En því er ekki að neita að það hefur verið rætt við Landsnet eins og marga aðra,“ sagði Hörður.
Aðspurður segir Hörður að meirihlutinn hafi ekki tekið afstöðu til undirskriftalistanna sem lagði voru fram í síðustu viku. Málið yrði tekið fyrir á næsta bæjarstjórnarfundi.
Hörður var inntur eftir því hvort einhver sérstök ástæða lægi að baki því að samningsumboðið var dregið til bara frá Suðurlindum.
„Við höfum ekki verið ánægð með þann drátt sem verið hefur í þessu. Óvissa er eitthvað það versta sem fólk getur staðið í, hvort sem um er að ræða fólk eða fyrirtæki. Við viljum því fara að komast að niðurstöðu um þessi mál, hver sem hún verður. Því vildum við fá þessa heimild aftur og leysa þetta hér heima.“
Aðspurður segir Hörður að sveitarfélagið Vogar sé ekki á leið út úr Suðurlindum með þessari ákvörðun.