Vogar: Breytingar á starfsmannastefnu og stjórnskipulagi
Skiptar skoðanir voru í bæjarstjórn Voga á síðasta fundi þegar kynntar voru tillögur stýrihóps um starfsmannastefnu og stjórnskipulag sveitarfélagsins.
Fulltrúi H-lista, sem er í minnihluta, gerði í bókun alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð meirihlutans, m.a. við það að þegar væri farið að vinna eftir nýju skipulagi áður en það hafi verið tekið til afgreiðslu í bæjarstjórn. Þegar hafi verið auglýst eftir nýju starfsfólki áður en nýja skipulagið var afgreitt.
Þá hefði verið rétt að kynna breytingar á stjórnsýslunni fyrir starfsfólki bæjarins „í því skyni að skapa samstöðu og jákvæðni gagnvart breytingunum," eins og segir í bókuninni.
Einnig lagði minnihlutinn til að frestað yrði að leggja niður atvinnumálanefnd bæjarins og mótmæltu því að starf tómstunda- og forvarnarfulltrúa verði lagt niður og flokkað þess í stað undir nýja stöðu frístunda- og menningarfulltrúa.
Fögnuðu þau því að lokum að skýrslan leggi til markvissa sýn og hvetji til endurmenntunar starfsfólks sveitarfélagsins og lögðu til að strax yrði unnið að því að koma því í framkvæmd.
Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri, svaraði aðfinnslum minnihlutans með því að taka fram að í fjárhagsáætlun sé heimild til að ráða bæjarritara. Þá sé eðlilegt verklag að samþykkja tillögur í bæjarstjórn áður en þær eru kynntar starfsfólki og ekki þurfi að hafa áhyggjur af forvarnarmálum í sveitarfélaginu. Forvarnarmál snerti nánast alla starfsemi sveitarfélagsins.
Birgir Örn Ólafsson, forseti bæjarstjórnar, lagði loks fram bókun þar sem hann sagði að mat meirihluta væri að þær breytingar sem lagt er upp með í tillögunum eigi eftir að skila sér í skilvirkari rekstri sveitarfélagsins og bættu starfsumhverfi.
Voru tillögurnar samþykktar með atkvæðum meirihluta, fulltrúar minnihluta sátu hjá. Einnig var skipaður innleiðingarhópur sem í sitja bæjarstjóri, skrifstofustjóri og fulltrúi starfsmanna sem valinn verður á fundi með trúnaðarmönnum starfsmanna.
Loftmynd/Oddgeir Karlsson - Séð yfir Voga.