Vogar bjóða íbúa höfuðborgarsvæðisins velkomna í sund
Sveitarfélagið Vogar ætlar að bjóða íbúa höfuðborgarsvæðisins sem verða heitavatnslausir í vikunni velkomna í sund.
„Við fetum í fótspor nágranna okkar í Reykjanesbæ og bjóðum höfuborgarbúum sem verða heitavatnslausir í vikunni, endurgjaldslaust í sund frá og með morgundeginum og á meðan að heitavatnslaust er.
Þakklæti er okkur enn ofurlega í huga fyrir vinarþelið sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sýndu í verki þegar heitavatnslaust var í vetur á Suðurnesjum. Sundlaugin er staðsett í íþróttamiðstöð sveitarfélagsins að Hafnargötu 17. Stutt er fyrir höfuðborgarbúa að skjótast til Voga og ekki nema um 20 mínútna akstur frá Hafnarfirði. Verið hjartanlega velkomin í vinalegu sundlagina okkar,“ segir í tilkynningu úr Vogum.