Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vogar: Aukið samstarf lögreglu og sveitarfélags
Þriðjudagur 22. janúar 2008 kl. 11:08

Vogar: Aukið samstarf lögreglu og sveitarfélags

Fjölmenni var á íbúafundi í Vogum í gær þar sem forvarnarmál voru í brennidepli. Virtust fundarmenn almennt sammála um að skerpa þyrfti á forvörnum í sveitarfélaginu ekki síst í ljósi nýlegra atburða sem hafa varpað skugga á annars friðsælt sveitarfélag.

Á fundinum kom fram að á næstu misserum á að auka samstarf sveitarfélagsins og lögreglunnar sem meðal annars felst í því að sérstakur forvarnarlögregluþjónn verður staðsettur í sveitarfélaginu. Það mun leggja til aðstöðu í félagsmiðstöðinni en lögreglan leggur til starfsmann frá og með vorinu.
Þá verður sérstöku ungmennaráði komið á laggirnar sem skipað verður ungu fólki  í sveitarfélaginu og mun njóta stuðnings tómstundafulltrúa og forvarnarlögregluþjóns.

Framsögur á fundinum fluttu Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri, Jóhann R. Benediktsson, lögreglustjóri á Suðurnesjum og  Árni Guðmundsson, uppeldisfræðingur, sem minnti á að ábyrgðin á uppeldi barnanna væri alltaf fyrst og fremst foreldranna. Góð tengsl foreldra og barna væri einn mikilvægasti þátturinn í forvörnum.

Sveitarfélagið hefur verið nokkuð í fréttum í tengslum við ákveðna menn sem þar búa. Skemmst er að minnast íkveikju í fjölda bíla sem voru í sveitarfélaginu og nýlegt handrukkunarmál.
Á fundinum kom fram gagnrýni á fjölmiðla fyrir að draga upp neikvæða mynd af sveitarfélaginu. Rætt var um hvernig bæta mætti ímynd sveitarfélagsins sem öruggt fjölskyldusamfélag.
Bæjarstjórinn í Vogum segir vafasama menn búa í öllum samfélögum, sem vilji slíka menn í burtu. Það sé ekkert öðruvísi í Vogum.


Mynd: Fjölmenni var á fundinum í Vogum í gærkvöldi. VF-mynd: elg.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024