Vogamenn vilja nýjan framkvæmdastjóra Dvalarheimila aldraðra sem fyrst
Bæjarráð sveitarfélagsins Voga leggur áherslu á að auglýst verði eftir nýjum framkvæmdastjóra Dvalarheimila á Suðurnesjum sem fyrst svo nýr framkvæmdastjóri geti komið að stefnumótun til framtíðar hjá DS. Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs Voga þar sem tekin var fyrir nýleg fundargerð Dvalarheimila aldraðra á Suðurnesjum. Með fundargerðinni var lagt fram erindi framkvæmdastjóra DS þar sem óskað er eftir aukaframlagi Sveitarfélagsins Voga að fjárhæð kr. 954.000,-
Í ályktun bæjarráðsins í Vogum leggur bæjarráð til að frekara framlag verði ekki lagt í Dvalarheimili aldraðra á Suðurnesjum fyrr en endurskipulagning starfseminnar hefur farið fram.
Bæjarráð leggur til að hugað verði vandlega að athugasemdum sem koma fram í úttekt landlæknisembættisins um Hlévang og Garðvang þegar framtíðar fyrirkomulag öldrunarmála á svæðinu verður skipulagt.