Vogamenn hafa áhyggjur af stöðu atvinnumála
„Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga lýsir þungum áhyggjum vegna stöðu atvinnumála í Sveitarfélaginu Vogum og á Suðurnesjum. Samkvæmt spá Vinnumálastofnunar fyrir ágúst 2020 er gert ráð fyrir að atvinnuleysi, almennt og minnkandi starfshlutfall, telji um 17% á Suðurnesjum og 13% í Sveitarfélaginu Vogum.
Útlit er fyrir að staðan versni enn frekar á komandi vikum og mánuðum en frá því þessar tölur voru birtar hafa borist upplýsingar um fjöldauppsagnir á svæðinu. Fjöldi einstaklinga á atvinnuleysisskrá er hvergi meiri á einu landsvæði en á Suðurnesjum,“ segir í bókun bæjarráðs Sveitarfélagsins Voga frá því á dögunum í tengslum við yfirlit Vinnumálastofnunar um atvinnuleysistölur í ágústmánuði.
Í ljósi þróunar á heimsfaraldri Covid-19 og þeirra sóttvarnaaðgerða sem stjórnvöld hafa gripið til, þá er ástand og horfur í atvinnumálum nú enn meira áhyggjuefni en var fyrir nokkrum vikum síðan. Eftir að heldur birti til á sumarmánuðum þá standa nú fjölmörg atvinnufyrirtæki frammi fyrir samdrætti í starfsemi þeirra, sem veldur tekjufalli og hefur í för með sér fækkun starfsfólks. Framundan er erfiður tími fyrir fjölmarga einstaklinga og heimila vegna atvinnumissis og óvissu í atvinnu- og fjármálum, segir jafnframt í bókuninni.
Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga beinir ákalli til ríkisstjórnar og alþingismanna um að vinna með sveitarfélögum á Suðurnesjum og aðilum vinnumarkaðarins að því að leita allra mögulegra leiða til þess að mæta þeim miklu áskorunum sem samfélagið stendur frammi fyrir og leita leiða til að koma hjólum flugtengdrar starfsemi í gang að nýju.
Bæjarráð skorar jafnframt á ríkisvaldið að styðja við sveitarfélagið vegna mikils samdráttar í tekjum þeirra, þannig að hægt verði að halda uppi eðlilegri þjónustu við íbúa.