Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mánudagur 27. nóvember 2000 kl. 11:19

Vogabær:Fjölskyldufyrirtæki flytur

Fyrirtækið Vogabær var stofnað 1976 sem verslun og rekið þannig í níu ár. Árið 1984 þegar stórmarkaðirnir komu á Suðurnes minnkuðu viðskiptin en í dag er fyrirtækið að stækka og flytja í nýtt húsnæði í Hafnarfjörðinn. Eigendurnir, hjónin Guðmundur Sigurðsson og Sigrún Ósk Ingadóttir, ákáðu að grípa til sinna ráða þegar samkeppnin harðnaði. „Þá ákváðum við að laga ídýfu og bjóða fólki snakk og dýfu á föstudögum. Þetta hafði þau áhrif að fólk bað okkur um að selja sér ídýfu. Þar með var lagður sá grunnur sem við byggjum á í dag. Þessi ídýfa var kryddblandan okkar sem við köllum flaggskip fyrirtækisins í dag“, segir Guðmundur en hjónin reka fyrirtækið í dag ásamt sonum sínum þeim Guðmundi, Sigurði Ragnari og Inga Guðna. Hjá Vogabæ starfa nú 10 manns. Fyrirtækið er til húsa að Vogagerði 8 í Vogum þar sem það hefur verið frá byrjun, en nú er bygging nýs húsnæðis hafin að Eyrartröð 2a í Hafnarfirði sem verður 1.300 fermetrar að stærð. Það er stálgrindarhús en stækkunin verður þreföld miðað við það húsnæði sem Vogabær hefur í dag. „Við stefnum að því að flytja í apríl á næsta ári. Við þessa stækkun komum við til með að geta aukið fjölbreytni í framleiðslunni. Helstu framleiðsluvörur okkar eru sjö tegundir af ídýfum, ellefu tegundir af sósum og þrjár tegundir af majónesi“, upplýsir Guðmundur. „Við erum búin að þróa nokkrar nýungar sem við getum ekki framleitt vegna húsnæðisskorts en það stendur til bóta þegar við flytjum. Öll þróun tekur langan tíma en Sigrún Ósk annast vöruþróun hjá Vogabæ ásamt „tilraunadýrum“ sem eru starfsfólk og kunningjar okkar“, segir Guðmundur brosandi. Framleiðsla Vogabæjar er seld um allt land. „Við hringjum út á land og tökum pantanir, pökkum síðan og sendum með bílum frá Reykjavík, en við höfum umboðsmenn á Reyðarfirði fyrir Austurland og í Vestmannaeyjum“, segir Guðmundur.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024