Vladímír Pútín fundar óvænt á Suðurnesjum
Vladímír Pútín, forsætisráðherra Rússlands og fyrrum forseti, gistir í Keflavík í nótt. Flugvél sem átti að flytja hann og föruneyti hans vestur um haf bilaði og varð að lenda í Keflavík síðdegis í gær. Fundur sem hann átti að sækja til Bandaríkjanna hefur óvænt verið færður til Íslands.
Pútín og föruneyti upp á tæplega 50 manns gistir nú á hóteli í Keflavík. Bandarísk sendinefnd kom einnig óvænt til Keflavíkurflugvallar undir kvöld í gær til fundar við Pútín í dag, sunnudag. Fundarstaðurinn verður í Bláa lóninu, samkvæmt heimildum Víkurfrétta. Ekki hafa fengist frekari upplýsingar um fundinn, né hverjir eru í bandarísku sendinefndinni.
Meðfylgjandi myndir voru teknar á Keflavíkurflugvelli síðdegis í gær. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson