Vítaverður glæfraakstur á Ljósanótt
Gestir í hættu á Hafnargötu
Íbúi í Reykjanesbæ hafði samband við Víkurfréttir og kvartaði undan vítaverðum akstri sem átti sér stað á sunnudagskvöldinu um Ljósanæturháíðina. Í vefpósti sem íbúinn sendi VF segir að þúsundir manna hafi orðið vitni af vítaverðum glæfraakstri ungs ökumanns, sem ók BMW af eldri gerð.
„Ökumaðurinn ásamt einum farþega, ók á milli hringtorga á Hafnargötunni, reikspólaði og sveigðist bifreiðin á milli akreina svo mannfjoldinn á götunni forðaði sér undan á hlaupum,“ segir maðurinn sem varð vitni af akstrinum.
Björgunarsveitarmenn og aðrir vegfarendur reyndu að stöðva ökumanninn, sem ásamt farþeganum hafði læst öllum hurðum og gluggum bifreiðarinnar. Ökumaðurinn ók því næst af stað út úr mannhafinu, yfir á rangan vegarhelming og ók síðan öfugum megin inn í hringtorgið við Fischershús.Vegfarendur margreyndu að stöðva ökumanninn, með því að tala við hann og banka í rúður bifreiðarinnar, en ökumaðurinn sinnti engum tilmælum.
Fjöldi barna var á götunni og sölutjöld opin, enda flugeldasýningin nýafstaðin. Ökumaðurinn viðurkenndi síðar að hafa ekið með þessum hætti, vegna þess að hann hefði gaman að því. Var ökumanninum bent á að takmarkaður hámarkshraði er á Hafnargötu og þúsundir manna og barna á götunni, þó svo að vegatálmanir hefðu nýlega verið fjarlægðar og gatan opnuð fyrir akandi umferð.
Mikill fjoldi fólks fylgdist með þessum atburði og leit á þennan akstur sem mjög vítaverðan við þessar aðstæður. Lögreglu var tilkynnt um atburðinn.