Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vitað um svifryksmengunina síðan á sumarmánuðum
Miðvikudagur 21. febrúar 2007 kl. 10:59

Vitað um svifryksmengunina síðan á sumarmánuðum

Þrátt fyrir að bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hafi haft vitað um svifryksmengunina í Reykjaneshöll um margra mánaða skeið fékk almenningur ekki vitneskju um málið fyrr en Víkurfréttir fjölluðu um það á dögunum. Mælingar heilbrigðisyfirvalda voru gerðar snemma síðastliðið sumar og leiddu þær í ljós að mengunin var langt yfir heilsuverndarmörkum. Samt er það ekki fyrr en nú sem ástæða þykir til að setja upp aðvörunarskilti í höllinni vegna þessa, eftir að málið komst í hámæli.

Í skriflegu svari bæjarstjóra við formlegri fyrirspurn Ólafs Thordersen, bæjarfulltrúa, kemur fram að málið hafi verið í vinnslu hjá starfsmönnum Umhverfis- og skipulagssviðs og Menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs á árinu 2006 þar sem gerðar hafi verið nokkrar tilraunir til útbóta. Málið hafi síðan verið kynnt bæjaryfirvöldum síðla árs við gerð fjárhagsáætlunar 2007 en Ólafur spurði m.a. annars af því hversu lengi bæjaryfirvöld hefðu vitað af menguninni.

Komið hefur fram að bæjaryfirvöld ætla að reyna sérstakan hreinsibúnað sem ætlað er að hreinsa rykið úr grasinu. Í svörum bæjarstjóra segir að framleiðandi búnaðarins muni taka hann til baka og endurgreiða ef hann reynist ekki sem skyldi. Áætlaður kostnaður við tækið eru tæpar 5,2 milljónir króna auk virðisaukaskatts.

Heilbrigðisnefnd Suðurnesja hefur fallist á að hreinsibúnaðurinn verði reyndur og falið heilbrigðiseftirlitinu að fylgjast með málinu. Niðurstöður skuli liggja fyrir eigi síðar en 8. mars nk. Búnaðurinn á að koma til landsins upp úr næstu mánaðamótum. Magnús Guðjónsson, heilbrigðisfulltrúi, segir að mælingar verði gerðar í kjölfarið til að kanna árangurinn. „Ef það kemur í ljós að vélin virkar er málið dautt. Ef ekki er það komið aftur á byrjunarreit,” sagði Magnús í samtali við VF.

Guðmundur Sighvatsson, forstöðumaður Reykjaneshallarinnar, segist aðspurður ekki verða var við að dregið hafi mikið úr aðsókn almennings að höllinni í kjölfar umræðu um svifryksmengunina. Þó megi merkja að örlítið hafi dregið úr aðsókn göngufólks en að öðru leyti sé fólk rólegt yfir málinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024