Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Vistvernd í verki í Vogum
Þriðjudagur 2. nóvember 2004 kl. 14:27

Vistvernd í verki í Vogum

Vatnsleysustrandarhreppur hefur gert samning við Landvernd um þátttöku í verkefninu Vistvernd í verki.

Vistvernd í verki er alþjóðlegt umhverfisverkefni fyrir heimili. Markmið verkefnisins er að styðja og hvetja fólk til að taka upp vistvænni lífsstíl skref fyrir skref á þeim hraða sem hver velur sér. Verkefnið er hið eina sinnar tegundar í heiminum svo vitað sé og hafa kannanir sýnt að það skilar miklum og varanlegum árangri í bættri umhverfismeðvitund og hegðun. Þetta kemur fram á heimasíðu Vatnsleysustrandarhrepps.

Ísland er eitt af þeim 19 löndum sem verkefnið hefur fest rætur í, en hér á landi eru nú þegar 15 sveitarfélög skráð til þátttöku. Alþjóðlegt heiti verkefnisins er GAP, en það stendur fyrir Global Action Plan for the earth og hefur verið í gangi í um 15 ár.

Vistvernd í verki byggist á hópstarfi þar sem fulltrúar 5 til 8 heimila koma saman til 7 fræðslufunda á 10-12 vikna tímabili. Hverjum hópi fylgir einn leiðbeinandi og allir þátttakendur fá handbók þar sem finna má góð ráð og skrá árangur starfsins. Leiðbeinandi stýrir fyrsta og síðasta fundi en þess á milli starfar hópurinn sjálfstætt en með stuðningi leiðbeinanda.

Í fyrsta hópnum í Vatnsleysustrandarhreppi eru 7 fjölskyldur og segir Þorvaldur Örn Árnason, formaður Umhverfisnefndar Vatnsleysustrandarhrepps, að verkefnið hafi verið skemmtilegt og nýtist vel að mörgu leyti. „Fyrsti hópurinn mun kynna starfið og niðurstöður þegar við klárum nú í nóvember. Við munum svo skrá þátttakendur í nýjan hóp sem byrjar væntanlega eftir áramót. Það kemur á óvart að fjölskyldurnar eru að spara nokkuð í útgjöldum, en það fer býsna oft saman að endurskipulagning í heimilisrekstirnum með umhverfislegum áherslum felur í sér talsverðan sparnað.“

Í tölum frá Landvernd kemur fram að útgjöld vegna rafmagns, hita og eldsneytis á ársgrundvelli minnka um tugi þúsunda. Auk þess minnkar sorpmagn á hvern íbúa um meira en helming vegna þess að heimilin flokka sorp og skila á endurvinnslustöðvar.

Þorvaldur segir að þetta verkefni hafi góð áhrif til framtíðar. „Þetta hefur langvarandi áhrif þar sem maður hverfur ekki aftur í gamla horfið eftir að hafa prófað að haga heimilisvenjum með umhverfisvænum hætti.“

Mynd/Vogar.is Jóhanna Reynisdóttir sveitarstjóri og Bryndís Þórisdóttir, umsjónarmaður Landverndar með verkefninu, undirrita þáttökusamning milli Vatnsleysustrandarhrepps og Landverndar

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024