Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 9. janúar 2002 kl. 12:29

Vistvænni bæ

Unnið hefur verið að umhverfisverkefninu „Staðardagskrá 21" í Reykjanesbæ undanfarin tvö ár. Reykjanesbær hefur markað sér stefnu sem vistvænt bæjarfélag.

Einn af byrjunarþáttunum er að stofna visthópa sem eru starfshópar íbúa þar sem tekist verður á við verkefnið "Vistvernd í verki". Fyrsti visthópurinn hefur sitt starf í janúar 2002. Haldið verður áfram að búa til visthópa og safna fólki saman sem áhuga hefur á að standa að vistvænum heimilisrekstri.
Þetta verkefni er mun léttara en margir halda. Það er líka skemmtilegt. Það skapar samstöðu innan fjölskyldunnar um umhverfisvænt heimilishald. Fullorðnir fá fræðslu um vistvænt umhverfi, börnin verða upplýstari um vistvæn viðhorf og gildi hreins og fagurs umhverfis.
Nauðsynlegt er að hafa í garðinum hjá sér jarðvegsgerðarkassa eða tunnur við þátttöku í visthópastarfinu. Stjórn Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja hefur góðfúslega komið að þessu máli og styrkir visthópana með því að lána til jarðvegsgerðar, þar til gerðar tunnur.
Fræðslufundur um verkefnið Vistvernd í verki verður haldinn í fundarsal Markaðs- atvinnu- og menningarskrifstofu Reykjanesbæjar í Kjarna mánudaginn 14. janúar kl 17:30.
Sigurborg Hannesdóttir fulltrúi GAP (Global Action Plan for the Earth) "Vistvernd í verki", hjá Landvernd á Íslandi, mætir á fundinn og leiðir fólk af stað.

Frekari upplýsingar veitir Johan D. Jónsson í síma 421 6700
( Sjá einnig upplýsingar um Staðardagskrá 21 á heimasíðu Reykjanesbæjar: www.reykjanesbaer.is )

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024