Vistvænn Þór borar eftir orku á Reykjanesi
– HS Orka og Jarðboranir hafa undirritað verksamning vegna gufuöflunar
HS Orka hf. og Jarðboranir hf. hafa undirritað verksamning um boranir vegna gufuöflunar fyrir jarðvarmavirkjanir HS Orku á Reykjanesi. Samningurinn teku til borunar á þremur borholum með möguleika á fimm holum til viðbótar. Að undangenginni verðkönnun sem HS Orka réðst í reyndist tilboð Jarðborana hagstæðast, því var ákveðið að ganga til samninga við fyrirtækið um verkið.
Það er sérstaklega ánægjulegt við samstarfið að borinn Þór sem notaður verður við borverkefnið er alfarið knúinn með raforku sem framleidd er á vistvænan hátt í orkuverum HS Orku. Við þetta sparast vel á annað hundrað þúsund lítrar af jarðefnaeldsneyti á hverja borholu, sem er gríðarlega mikilvægt í umhverfislegu og efnahagslegu tilliti, segir í tilkynningu frá HS Orku. Framkvæmdir við verkið munu hefjast nú í desember.
„Með þessu verkefni er markað mikilvægt skref í framtíðarrekstri orkuveranna og annarra fyrirtækja í Auðlindagarðinum í Svartsengi og á Reykjanesi, með sína fjölþættu starfsemi við margháttaða nýtingu jarðvarmaauðlindarinnar,“ segir Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku.
„Jarðboranir eru afar ánægðar með að HS Orka hafi gengið að tilboði okkar um boranir á Reykjanesi. Félögin hafa átt í áratugalöngu samstarfi og verðmæt verkþekking orðið til hjá báðum félögum sem nú er hægt að halda áfram að byggja upp. Við erum stolt að geta boðið félaginu rafmagnsborinn Þór sem fellur óneitanleg vel að hugmyndafræði HS Orku og Auðlindagarðsins um alhliða nýtingu á endurnýjanlegum orkugjöfum“ segir Baldvin Þorsteinsson forstjóri Jarðborana.