Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vissi ekki af 157 kílóum af fíkniefnum í skútu við Garðskaga
Skútan í Sandgerðishöfn 24. júní í sumar. Mynd/Sigurður Þorkell Jóhannsson
Fimmtudagur 5. október 2023 kl. 09:41

Vissi ekki af 157 kílóum af fíkniefnum í skútu við Garðskaga

Einn einstaklingur situr í áframhaldandi gæsluvarðhaldi eftir að hafa verið handtekinn af lögreglu á skútu úti fyrir Garðskaga í júní í sumar. Skútan var færð til hafnar í Sandgerði í viðamikilli aðgerð sem að komu, auk lögreglu, menn frá bæði tollgæslu og landhelgisgæslu. Landsréttur úrskurðaði manninn í áframhaldandi gæsluvarðhald, þó ekki lengur en til  fimmtudagsins 12. október næstkomandi.

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. september sl. segir m.a.: Að kvöldi 23. júní 2023 sást skúta úti við Garðskagavita. Sást maður sigla úr skútunni á gúmmíbát og þar annan mann í fjörunni. Sáust þeir bera vistir, bensín og utanborðsmótor úr bifreið og í gúmmíbátinn. Sigldi maðurinn sem kom á gúmmíbátnum á ný út í skútuna eftir það. Lögregla fór í framhaldinu um borð í skútuna þar sem varnaraðili var ásamt þeim sem hafði farið í gúmmíbátnum. Við leit í skútunni fundust 157.092 grömm af hassi og 40,52 grömm af maríúana.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Teknar voru skýrslur af varnaraðila 24. júní, 30. júní og 26. júlí sl. Aðspurður sagðist hann hafa farið í bátsferð til gamans með hinum skipverjanum á skútunni. Varnaraðili vissi ekki hver borgaði flugmiðann fyrir hann frá Grænlandi til Kaupmannahafnar. Kvaðst varnaraðilinn hafa verið búinn að vita af hinum skipverjanum í meira en tíu ár en hann þekkti hann ekki vel. Hann sagði að þeir hefðu byrjað ferðina rétt sunnan við Bergen í Noregi og hafi ætlað að sigla í kringum Ísland og þaðan til Danmerkur. Varnaraðili sagði þá hafa lent í stormi og hafi því stoppað við Íslandsstrendur þar sem að það vantaði vistir. Varnaraðili hafi ekki þekkt og ekki séð manninn sem kom með vistir til þeirra við Garðskaga. Aðspurður kvaðst varnaraðili ekki vitað af neinum fíkniefnum í skútunni.

Í þriðju skýrslutöku var varnaraðila kynnt að lögreglan hefði talað við fyrrum eiganda skútunnar og fengið upplýsingar um hver borgaði fyrir skútuna. Fyrrum eigandi framvísaði millifærslu upp á 150.000 danskar krónur þar sem fram kemur að varnaraðili millifærði upphæðina 10. mars 2023. Aðspurður sagði hann að þessi fjárhæð hefði verið lögð inn á reikninginn hans og hann hefði svo millifært á fyrrum eiganda skútunnar. Aðspurður sagðist hann ekki vita hver lagði inn á reikninginn sinn og sagði það hafa verið gert í nokkrum millifærslum en man ekki hve mörgum. Aðspurður hver hefði beðið hann um að millifæra þessa fjárhæð á fyrrum eiganda skútunnar sagðist hann ekki muna það nema vera með símann sinn. Það kæmi fram í símanum hver hefði beðið hann um það. Aðspurður sagðist varnaraðili ekki muna hvað einstaklingurinn heitir.

Þann  24. júní sl. var kærði úrskurðaður í gæsluvarðhald og einangrun til 4. júlí 2023 á grundvelli rannsóknarhagsmuna með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sem staðfestur var með úrskurði Landsréttar. Þann 4. júlí sl. var kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna til þriðjudagsins 1. ágúst 2023 og einangrun til þriðjudagsins 11. júlí 2023 með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sem staðfestur var með úrskurði Landsréttar. Þann 1. ágúst sl. var kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna til 29. ágúst 2023 með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sem staðfestur var með úrskurði Landsréttar. Þá var kærða gert að sæta  gæsluvarðhaldi  til  15. september 2023 með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sem staðfestur var með úrskurði Landsréttar.

Eins og rakið er að framansögðu þá hefur lögregla til rannsóknar mál á hendur ákærða og fleirum sem varðar innflutning mikils magns fíkniefna með skútu sem siglt var upp að ströndum landsins. Telur lögreglustjóri ætluð brot sem ákærði eigi aðild að geta varðað við ákvæði almennra hegningarlaga sem segir að slík brot varða allt að tólf ára fangelsisrefsingu ef sök sannast. Ákærði hefur sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins samfleytt frá 24. júní 2023. Af hálfu ákærða er kröfu um áframhaldandi gæsluvarðhald mótmælt. Er vísað til þess að ákærði hafi staðfastlega vísað til þess að hann hafi ekki haft vitneskju um eðli farmsins. Landsréttur staðfesti áframhaldandi gæsluvarðhald, þó ekki lengur en til 12. október nk.