Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 26. maí 2000 kl. 16:09

Vísir.is, frettavefurinn.is og vf.is í samstarf

Fréttavefurinn, Víkurfréttir og Vísir.is hafa gert með sér samning um gagnkvæma fréttamiðlun á Netinu og gagnkvæmar tengingar á vefjum sínum. Forráðamenn vefsvæðanna segjast með þessu auka þjónustu og styrkja þar með miðla sína. Fréttavefurinn er öflugasti netmiðilinn á Austurlandi og Víkurfréttir, sem reka vf.is, hinn öflugasti á Suðurnesjum. Vísir.is er mest sótta vefsvæði á landinu þannig að þarna sameina krafta sína þrír netmiðlar, sem hver er öflugastur á sínu sviði. Víkurfréttir reka öflugustu fréttastofu á landsbyggðinni og auk þess að gefa út vikulegt fréttablað gefur fyrirtækið út mánaðarlegt tímarit, vikulegt blað fyrir varnarliðið á Keflavíkurflugvelli og sinnir auk þess fréttaþjónustu fyrir Stöð 2 og Bylgjuna. Samstarf við Visi.is er enn einn þáttur í því að auka fréttaþjónustu frá Suðurnesjum. Fréttavefurinn tók til starfa í apríl á síðasta ári og er því rúmlega ársgamall. Á þeim tíma hefur hann náð að skapa sér fastan sess í hugum austfirskra netverja sem og annarra sem vilja fylgjast með því sem er að gerast á Austurlandi. Fréttavefurinn hefur samvinnu við ýmsa aðila á Austurlandi, jafnt fjölmiðla sem einstaklinga, varðandi fréttaöflun og fer þeim stöðugt fjölgandi sem senda Fréttavefnum efni. Á næstu mánuðum eru fyrirhugaðar gagngerar breytingar á útliti og innihaldi Fréttavefjarins. Fréttir frá Austurlandi munu áfram verða hornsteinn vefsvæðisins, og mun sú þjónusta efld, auk þess sem fréttatengt efni og ýmiskonar afþreying fær aukið vægi. "Í dag hefur frettavefurinn.is afgerandi forystu varðandi heimsóknafjölda á austfirsk vefsvæði," segir Kristján Kristjánsson ritstjóri hans. "Með samstarfinu við Vísi.is er ljóst að sú forysta mun enn aukast," segir Kristján. Víkurfréttir voru fyrsti íslenski fjölmiðillinn sem fór á netið í ársbyrjun 1995 og hefur verið þar síðan með fréttaþjónsutu. Um síðustu áramót var fréttaþjónusta efld til muna og síðan þá hafa daglega verið nýjar fréttir og efni á vf.is. Vísir.is er fjölförnustu gatnamótin á íslenska Internetinu. Hann er öflugur miðill á sviði frétta, íþrótta, viðskipta og annarra rafrænna samskipta manna á milli auk þess að vera miðstöð verslunar á Netinu. Vísir miðlar fréttum frá fréttastofum DV, Dags, Viðskiptablaðsins, Stöðvar 2, Bylgjunnar auk eigin fréttastofu. Helstu samstarfsaðilar Vísis eru Baugur, Norðurljós, Leit.is, Lánstraust, Tölvumyndir, Samvinnuferðir-Landsýn, Opin kerfi, Aco, DV-Fókus og Smáauglýsingar DV.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024