Vísir að leigumarkaði að myndast á Suðurnesjum
- Langir biðlistar eftir 60 til 70 fm íbúðum.
Mikil eftirspurn er eftir leiguhúsnæði á Suðurnesjum að sögn Reynis Kristinssonar hjá Tjarnarverki ehf. Fyrirtækið leigir út 107 íbúðir í Reykjanesbæ og Vogum. „Það er að myndast ákveðinn leigumarkaður á Suðurnesjum en það þarf lengri tíma til að byggja hann upp. Það er stefnan hjá Tjarnarverki að fólk geti leigt til langs tíma og þannig verið öruggt á sínum stað,“ segir hann.
Að sögn Reynis er leiguverð á Suðurnesjum töluvert lægra en á höfuðborgarsvæðinu. Hér er meðalverð á fermetra leiguhúsnæðis um 1600 krónur á mánuði, samanborið við 2000 til 2500 krónur þar. „Leiguverðið fer hækkandi. Það þótti töluvert þegar við hækkuðum verðið upp í 1600 krónur á fermetrann fyrr á þessu ári. Það eru þó dæmi um að íbúðir á Suðurnesjum séu leigðar út fyrir 1700 til 1800 krónur á fermetrann, það sér maður á auglýsingum á vefnum Bland og á Facebook.“
Sá hópur fólks sem leigir íbúðir af Tjarnarverki ehf. eru að sögn Reynis á ýmsum aldri en flestir eru ungt fólk með börn. „Oft hefur fólk verið í kytrum áður en getur svo með batnandi atvinnuástandi leyft sér að leigja nýja íbúð en flestar íbúðirnar sem við leigjum út voru byggðar á árunum 2007 til 2008.“ Lengstur er biðlistinn eftir 60 til 70 fermetra íbúðum og getur biðin því tekið nokkra mánuði. „Við leigjum líka út fimm herbergja íbúðir sem hafa verið mjög vinsælar. Þá er fólk að stækka við sig hjá okkur, fer úr minni leiguíbúð og í stærri.“