Vísbendingar um að kvikugangurinn sé kominn í Nátthaga
„Það eru vísbendingar um að gangurinn sé kominn í Nátthaga, sem er dalur aðeins austan við Borgarfjallið, aðeins austan við Nátthagakrika,“ sagði Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands, í hádegisfréttum RÚV. „Þetta eru ekki miklar breytingar, og breyta ekki okkar sviðsmyndum, en þetta eru kannski 500 metrar sem gangurinn virðist færast á sólarhring,“ segir hún í viðtalinu.
Til að setja staðhætti í samhengi þá er Borgarfjall upp af Ísólfsskála sem er austan við Festarfjall.
Á myndinni með fréttinni eru eru skýringar settar ofan í kort frá Landmælingum Íslands.