Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Vísa gagnrýni sveitarstjóra Voga á bug
Þriðjudagur 18. mars 2003 kl. 08:34

Vísa gagnrýni sveitarstjóra Voga á bug

Bæjaryfirvöld í Garðabæ vísa því á bug að þau hafi reglubundið veitt lágtekjufólki viðbótarlán til kaupa á húsnæði í Vogum á Vatnsleysuströnd.

„Við erum ekki að flytja fólk eitt né neitt, hvorki í Vogana eða annað," segir Bergljót Sigurbjörnsdóttir, félagsmálastjóri Garðabæjar. Samkvæmt verklagsreglum Garðabæjar um veitingu viðbótarlána er almenna reglan sú að þeir eiga rétt á viðbótarláni sem eiga lögheimili í Garðabæ og eru að kaupa fasteign í bæjarfélaginu“.Þetta kemur fram í tilkynningu sem bæjaryfirvöld sendu frá sér vegna ummæla Jóhönnu Reynisdóttir, sveitarstjóra Voga, í Fréttablaðinu í gær. Þar gagnrýnir hún bæjaryfirvöld Garðabæjar og Seltjarnarness fyrir að veita lágtekjufólki viðbótarlán og vísa því síðan á íbúðir í Vogum.

Bergljót segir að á þessu ári hafi bærinn afgreitt 14 viðbótarlán og í einu tilfelli hafi verið veitt undanþága til kaupa annars staðar en í Garðabæ. Í fyrra hafi verið veitt 33 viðbótarlán, þar af fjögur til umsækjenda sem hafi átt lögheimili í öðru sveitarfélagi en viljað kaupa íbúð í Garðabæ.

Samkvæmt upplýsingum frá Íbúðalánasjóði er sveitarfélögum í sjálfsvald sett hvort þau veita umsækjendum viðbótarlán fyrir íbúðakaupum annars staðar en þar sem þeir eiga lögheimili. Yfirleitt er þó sett skilyrði fyrir því að viðkomandi kaupi íbúð í því sveitarfélagi þar sem lánið er veitt.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024