Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vísa afgreiðslunni til umboðsmanns Alþingis
Þriðjudagur 20. nóvember 2007 kl. 14:58

Vísa afgreiðslunni til umboðsmanns Alþingis

Meirihluti sjálfstæðismanna í bæjarráði Reykjanesbæjar segir það einkennilegt að fulltrúar A-listans geri athugasemdir í fjölmiðlum um afgreiðslu mála í bæjarráði án þess að ræða við ræða við formann bæjarráðs eða starfsmenn sveitarfélagsins áður og óska eftir öðrum eða breyttum starfsaðferðum í bæjarkerfinu.
Á síðasta bæjarráðsfundi lagði meirihlutinn fram fjölda samninga frá síðasta ári til staðfestingar. A-listin mótmælti harðlega vinnubrögðum Sjálfstæðismanna, kallar þau yfirklór og vísaði afgreiðlsunni til umboðsmanns Alþingis til frekari athugunar.

Bæjarfulltrúar A-listans gagnrýndu á dögunum að samningur um sölu  á fimm prósenta hlut bæjarins í Hitaveitu Suðurnesja til Orkuveitu Reykjavíkur í sumar hafi aldrei komið til afgreiðslu bæjarstjórnar.  Segjast bæjarfulltrúar A-listans ekki hafa séð þann samning fyrr en á dögunum þegar Eysteinn Jónsson kallaði eftir gögnum um málið. Meirihlutinn sagði  hins vegar að gengið hefði verið frá sölunni á grundvelli viljayfirlýsingar í bæjarráði, en sá háttur væri oft og iðulega hafður á þegar bæjarráð tæki ákvörðun í málum, s.s. um kaup og sölur á eignum.?

Í kjölfar þessa lögðu sjálfstæðismenn fram fjölda samninga á síðasta bæjarráðsfundi vegna mála sem áður höfðu verið á dagskrá bæjarráðs á síðasta ári.  Jafnframt lögðu þeir fram bókun þar sem segir:

„Í umfjöllun í fjölmiðlum síðustu daga hafa bæjarfulltrúar minnihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar gert athugasemdir við afgreiðslu bæjarráðs á sölusamningi vegna hlutabréfa í Hitaveitu Suðurnesja til Orkuveitu Reykjavíkur. Þær athugasemdir hafa hins vegar aldrei komið fram á bæjarráðsfundum eða verið gerðar við formann ráðsins.
Vegna þessarar umfjöllunar eru nú lagðir fram verk-, kaup- eða sölusamningar sem samþykktir hafa verið í bæjarráði á þessu kjörtímabili en hafa síðar verið afgreiddir með formlegum hætti af hálfu embættismanna sveitarfélagsins, þar á meðal umræddur samningur Reykjanesbæjar og Orkuveitu Reykjavíkur.
Lóðaleigusamningar eru hér undanskyldir.
Minnihluti bæjarráðs og bæjarstjórnar hefur aldrei áður gert athugasemdir við þessa meðferð mála hjá bæjarráði og vekur það furðu að slíkar athugasemdir skuli settar fram fyrst nú, þrátt fyrir margra ára hefð við afgreiðslu sambærilegra mála.
Þá er einkennilegt að slíkar athugasemdir við afgreiðslu mála í bæjarráði skuli settar fram í fjölmiðlum án þess að ræða við formann bæjarráðs eða starfsmenn sveitarfélagsins áður og óska eftir öðrum eða breyttum starfsaðferðum í bæjarkerfinu.


Minnihluti A-lista lagði einnig fram bókun þar sem segir:
„Við greiðum ekki atkvæði í þessu máli, heldur mótmælum harðlega þeim vinnubrögðum sem sjálfstæðismenn í bæjarráði Reykjanesbæjar viðhafa í þeirri tilraun sinni að klóra yfir mistök sín undanfarna mánuði. Þau eru að okkar hyggju bæði brot á bæjarmálasamþykkt Reykjanesbæjar og sveitarstjórnarlögum. Við munum því vísa þessari afgreiðslu til umboðsmanns Alþingis til frekari athugunar.“


Sjá fundargerð bæjarráðs:
http://rnb.is/fundargerdir.asp?cat_id=1&mtg_id=1359400719404220

 

Mynd: Hart hefur verið tekist á í stjórnkerfinu um málefni Hitaveitu Suðurnesja hf.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024