Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Virkjun: Hef ekki undan að saga niður spýtur
Laugardagur 10. desember 2011 kl. 14:11

Virkjun: Hef ekki undan að saga niður spýtur

Virkjun er hugsuð sem „virknimiðstöð“ með hag þeirra sem ekki eru á vinnumarkaði að leiðarljósi og áherslu á atvinnuleitendur. Allir eru hins vegar velkomnir í Virkjun alla virka daga milli klukkan 08:00 til 16:00 hvort sem þeir eru atvinnuleitendur, atvinnulausir, bótaþegar og heldra fólk. Aðsókn að Virkjun hefur farið stig vaxandi og lítur út fyrir að heimsóknir í Virkjun verði tæplega 15.000 í ár. Þróunin í Virkjun er sú að starfsemin er að stórum hluta drifin áfram af sjálfboðaliðum sem leiðbeina á námskeiðum og halda utan um hópastarfsemi. Það eru að jafnaði 30 sjálfboðaliðar að störfum á viku og 6 hópar og námskeið að jafnaði á dag. Hér kynnumst við Jóni Arasyni sem er einn af fjömörgum sjálfboðaliðum í Virkjun. Fleiri viðtöl við fólkið í Virkjun í næstu blöðum Víkurfrétta.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Jón Arason býr í Grindavík þar sem hann vann við hellulagnir og vélavinnu. Hann hafði átt við meiðsl að stríða og hafði aðeins starfað hjá síðasta vinnuveitenda í tvö ár þegar hann missti vinnuna.

Hann fór að venja komur sínar í Virkjun, þótt stopult væri í byrjun og árið 2009 hafði hann skráð sig á útskurðarnámskeið. Það fór þó ekki betur en svo að kennarinn þurfti að hætta kennslu vegna veikinda og þá voru góð ráð dýr.

„Ég álpaði því út úr mér að ég hefði eitthvað verið að skera út svona í frístundum og Gunnar forstöðumaður í Virkjun var ekki lengi að biðja mig um að taka að mér kennsluna. Nú er ég að kenna tvö námskeið í viku og hef ekki undan að saga niður spýtur“.

Að sögn Jóns er hópurinn sem sækir námskeiðin fjölbreyttur, áhuginn er mikill og virðist ekkert vera að dvína.

Hvað hefur Virkjun gert fyrir þig?
Hún hefur komið í veg fyrir að ég lokaði mig af, ég dríf mig á lappir á morgnana og það er gott að vera innan um fólk. Það er bæði gaman að halda námskeiðin og svo hef ég sjálfur sótt ýmis námskeið, t.d. sótti ég námskeið í færni í ferðaþjónustu síðasta vetur.