Virkjum skapandi krafta svæðisins í Hacking Reykjanes
Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum í samstarfi við Hacking Hekla og öfluga aðila á Reykjanesi bjóða heimamönnum og öðrum landsmönnum á hugarflugsviðburð til að móta hugmyndir og verkefni sem styðja við sjálfbæra framtíð svæðisins.
Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, í góðu samstarfi við Hacking Hekla undirbúa lausnamótið Hacking Reykjanes sem fer fram dagana 17. - 19. mars. Hacking Hekla er samstarfsvettvangur og fyrsta röð lausnamóta fyrir landsbyggðina sem ferðast hringinn í kringum landið. Vettvangurinn Hacking Hekla varð til 2020 og hélt fyrsta lausnamótið á Suðurlandi það haust og í kjölfarið Hacking Norðurland vorið 2021 og Hacking Austurland haustið 2021.
Lausnamót er einskonar hugarflugsviðburður nýrra hugmynda og fer að mestu fram á netinu í gegnum samsköpunarlausnina Hugmyndaþorp. Á lausnamótinu verður markmiðið að vinna að sjálfbærri framtíð í nýtingu auðlinda á Reykjanesi og verða lagðar fram fjórar áskoranir í samstarfi við bakhjarla á svæðinu til að ná því markmiði:
Orka og og jarðhiti
Hvernig getum við aukið verðmætasköpun með því að nýta orkuna á Reykjanesi?
HS Orka leiðir þessa áskorun
Hringrásarhagkerfið og fullvinnsla afurða
Hvernig getum við aukið verðmætasköpun þvert á atvinnugreinar með aukinni fullvinnslu afurða til að koma í veg fyrir að auðlindir verði að úrgangi?
Kaupfélag Suðurnesja leiðir þessa áskorun
Alþjóðlegur flugvöllur og þjónusta
Hvar liggja tækifærin í nýsköpun og aukinni þjónustu í tengslum við alþjóðaflugvöll, ferðaþjónustu og þjónustu við farþega og flug?
Kadeco leiðir þessa áskorun
Sjávarútvegur og bláa hagkerfið
Hvernig getum við stuðlað að nýsköpun og þróun í sjávarútvegi og tengdum greinum?
Fisktækniskóli Íslands og Sjávarakademían leiða þessa áskorun
Markmið lausnamótsins er að efla frumkvöðlastarf og sköpunarkraft á svæðinu og þannig stuðla að nýjum verkefnum og viðskiptatækifærum. Lausnamótinu er ekki síður ætlað að vekja athygli á því öfluga frumkvöðlasamfélagi sem er á Reykjanesi. Það er til mikils að vinna en bakhjarlar og stuðningsaðilar lausnamótsins veita peningaverðlaun fyrir bestu hugmyndina og frumlegustu hugmyndina ásamt fjölda aukavinninga frá fyrirtækjum á svæðinu.
Lausnamótið er fyrir alla sem vilja hugsa í lausnum og leysa vandamál og áskoranir sem finnast á Reykjanesi. Útkoman úr lausnamótinu getur verið stafræn lausn, vara, þjónusta, verkefni, hugbúnaður, vélbúnaður, markaðsherferð, eða annað í þeim dúr. Þátttakendur þurfa ekki að búa yfir reynslu eða hafa tekið þátt áður í lausnamóti eða öðru frumkvöðlastarfi. Allir eru velkomnir og þetta er frábær leið til að efla skapandi hugsun og þjálfast í ferlinu að koma góðum hugmyndum í framkvæmd. Allar upplýsingar og dagskrá má finna á heimasíðu Hacking Hekla en þar fer einnig fram skráning. Verkefnið er styrkt af Lóu og Atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytinu.
„Við viljum virkja sköpunarkraftinn sem býr á Suðurnesjum enda tækifærin þar mörg og ljóst að nýsköpun mun varða leiðina að enn sterkara samfélagi. Við þurfum að vinna að sjálfbærari framtíð og auka þau verðmæti sem búa hér” sagði Berglind Kristinsdóttir framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum en verkefnið er unnið í samstarfi við hagsmunaaðila og fyrirtæki á Suðurnesjum.
„Við erum afskaplega ánægð með þau viðbrögð sem við höfum fengið og eru mörg af stærstu fyrirtækjunum okkar að taka þátt og leggja verkefninu lið sem er afar ánægjulegt.”
Dómnefnd Hacking Reykjanes mun velja bestu hugmyndina og þá frumlegustu og er verðlaunafé veglegt.
Dómnefndina skipa: Ásta Kristín Sigurjónsdóttir framkvæmdastjóri íslenska Sjávarklasans, Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri, Þór sigfússon stofnandi Sjávarklasans og Gunnhildur Vilbergsdóttir formaður stjórnar Eignarhaldsfélags Suðurnesja.
Þeir sem leggja til verðlaunafé eru Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, HS orka, Algalíf og Eignarhaldsfélag Suðurnesja.
Verðlaun fyrir bestu hugmyndina er kr. 600.000 og 200 fyrir frumlegustu hugmyndina.
Afurð Hacking Reykjanes getur verið stafræn lausn, vara, þjónusta, verkefni, hugbúnaður, vélbúnaður, markaðsherferð eða annað í þeim dúr.
Bakhjarlar og samstarfsaðilar Hacking Reykjanes eru Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, Hacking Hekla, HS orka, Kaupfélag Suðurnesja, Kadeco, Eignarhaldsfélag Suðurnesja, Fisktækniskóli Íslands, Sjávarakademían, Bláa lónið og Algalíf.