Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Virða ekki reglur
Þriðjudagur 21. apríl 2009 kl. 16:12

Virða ekki reglur


Líkt og í Sandgerði hefur borið talsvert á akstri torfæru- og fjórhjóla í bæjarlandi Sveitarfélagsins Voga án þess að virtar séu þær reglur sem gilda um akstur slíkra ökutækja. Akstur á opnum svæðum með tilheyrandi gróðurskemmdum er því miður staðreynd. Á heimasíðu Voga er athygli vakin á þessu með mynd sem sýnir nýlegar gróðurskemmdir á Stapa.

Í Sandgerði leita bæjaryfirvöld nú leiða til að koma í veg fyrir innanbæjarakstur á slíkum ökutækjum en nokkuð hefur borið á honum þar. Er í því skyni verið að huga að aðstöðu utan við bæinn þar sem unnendur mótorsports gætu stundað sitt áhugamál í friði og sátt við umhverfi sitt og nágranna. Bæjarfréttavefurinn www.245.is sýndi í síðustu viku sláandi myndband af því hvernig ungir fjórhjólamenn spændu upp gróðri í bæjarfélaginu. Þá var sagt frá ökumanni fjórhjóls sem hafði á ofsahraða reynt að stinga lögreglu af á götum bæjarins en hann hafði ekki ökuréttindi.

Meginreglan er sú að fjórhjólum og torfærumótorhjólum er óheimilt að aka hvort heldur er á vegum, slóðum eða utan þeirra. Sérstaklega er tekið á þessu í reglugerð um takmarkanir á umferð í náttúru Íslands, bannað er að aka vélknúnum ökutækjum utan vega í náttúru Íslands. Á því banni eru nokkrar undantekningar sem snúa að landbúnaði, landgræðslu og björgunarstörfum.

Hinsvegar er heimilt að aka þeim á svæðum sem samþykkt hafa verið fyrir akstursíþróttir samkvæmt reglugerð um akstursíþróttir og aksturskeppni. Dæmi um slíkt svæði er akstursíþróttasvæðið í Sólbrekkum og eru ökumenn hvattir til að nýta sér það í stað þess að aka um ólöglega innan sveitarfélagsins, segir á vef Sveitarfélagsins Voga.

---

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

VFmynd/elg - Utanvegaakstur er stundaður víða á Reykjanesi.